Talsvert hefur verið rætt og ritað um biðlista Fangelsismálastofnunar að undanförnu og eðlilega. Dómar fyrnast hjá sumum á meðan aðrir bíða í mörg ár þar til afplánun hefst. Það er að sjálfsögðu ekkert nema mannréttindabrot að boða menn í fangelsi mörgum árum eftir að dómur er kveðinn upp og aðstæður viðkomandi mögulega allt aðrar. Dæmi eru um að dómþolar hafi komið sér upp fjölskyldu og húsnæði til þess eins að missa allt aftur þegar biðin er loksins komin að þeim. Þá hlýtur þetta einnig að vera hræðileg tilfinning fyrir brotaþola að sjá dómi gerandans ekki fullnægt. Þannig réttlætið er hvergi.

Ýmsar lausnir hafa verið lagðar fram og tillögum skilað til ráðherra. Það hefur skilað því að Fangelsismálastofnun mun að öllum líkindum fá heimild til að veita dómþolum sem hafa fengið allt að 24 mánaða dóm leyfi til að fullnusta dóminn í samfélagsþjónustu. Þar er um að ræða tímabundna hækkun úr 12 mánuðum í 24 mánuði. Afstaða styður að sjálfsögðu þetta úrræði en hefði viljað sjá það varanlegt. Staðreyndin er nefnilega sú að fangelsi skemma og vægari úrræði eru betri, veita meira aðhald og aukinn árangur. Því ber að fagna þessu skrefi dómsmálaráðherra.

Afstaða hefur aftur á móti áhyggjur af því að dómskerfið muni ekki spila með ráðherra og hækka dóma yfir einstaklingum til þess að tryggja að þeir sitji af sér í fangelsi. Við búum nefnilega við dómskerfi sem fer eftir almenningsálitinu og eflaust munu heyrast raddir sem krefjast þess að brotamenn dúsi á bak við lás og slá. Almenningsálitið stýrist af tilfinningum og það er ótækt að dómarar geri það einnig. Að því sögðu telur Afstaða að dómarar eigi sjálfir að ákveða hvort dómþolar fái fangelsisrefsingu, samfélagsþjónustu eða önnur úrræði sem vantar nauðsynlega að dómarar nýti sér, til dæmis alls kyns meðferðir. Þá mætti einnig bæta því við að gefa tilteknum dómþolum möguleikann á að hefja nám sem skilyrði fyrir skilorðsdómi. Gefa fólki tækifæri til að bæta sig.

Þá er það flöskuhálsinn. Hann myndast vegna þess að um eða yfir 30% fanga í fangelsum landsins eru með eitt eða fleiri mál ólokin „í kerfinu“. Í langflestum tilvikum má rekja tafir mála til rannsóknar lögreglu en það er þannig að þegar einstaklingar eru komnir í afplánun þá falla mál þeirra úr forgangi hjá lögreglunni. Málin fara aftast í bunkann og allur gangur er á því hvort þau verði felld niður, sýknað sé fyrir dómi eða dómar séu mildaðir eða skilorðsbundnir vegna tafa. Þarna er alvarlegur vandi. Lögregla þarf meiri mannskap til rannsókna og það verður að leggja aukna áherslu á að mál frelsissviptra séu sett í forgang og þeim lokið. Á meðan málin eru „í rannsókn“ fá sömu dómþolar ekki framgang í afplánun sinni sem þýðir að þeir fara ekki á næstu skref á borð við opin úrræði, áfangaheimili, rafrænt eftirlit eða fái reynslulausn. Þetta gerir afplánun umræddra dómþola mun þungbærari auk þess sem þeir taka pláss sem Fangelsismálastofnun gæti nýtt til að stytta lista sinn.

Taka ber fram að þetta er alls ekki algilt og virðist handahófskennt hjá lögreglu hvernig tekið er á málum frelsissviptra.

Dómsmálaráðherra hefur skipað nefnd til ætlað er að finna fleiri leiðir til að fækka á boðunarlista Fangelsismálastofnunar og stytta biðtíma mála. Því ber að fagna og viljum hjá Afstöðu benda á mikilvægi þess að hafa ofangreindar upplýsingar til hliðsjónar í því starfi. Það eru ekki aðeins mannréttindi þeirra sem sitja af sér dóma sem við horfum til heldur einnig þess að það hlýtur að skipta máli fyrir brotaþola að öllum málum sé sinnt hjá lögreglu þannig að dómar verði ekki mildaðir eða skilorðsbundnir vegna tafa hjá lögreglu. Það skiptir samfélagið allt máli að það falli sanngjarnir dómar og að afplánun sé með réttlætum hætti. Þetta helst allt í hendur.

Á sama tíma hvetur Afstaða Fangelsismálastofnun til að breyta afstöðu sinni og hætta að miða við að dómþolar hafi mál í kerfinu þegar stjórnsýsluákvarðanir eru teknar um framgang í afplánun dóma. Dómþolar eiga ekki sök á því að lögreglan ræður ekki við fjölgun mála.