Það er mál manna að undirbúningsnefnd kjörbréfanefndar Alþingis hafi staðið sig ágætlega í þeim rannsóknarlögreglustörfum sem hún hefur fengist við undanfarnar átta vikur. Fækkað hefur í þeim hópi sem var fullviss um að nefndin myndi hvítþvo fúskið í Norðvesturkjördæmi og skvaldra sig niður á fyrir fram ákveðna tillögu til þingsins um gott veður og óbreytt ástand.

Við þurfum að bíða einn dag enn eftir þeim tillögum sem lagðar verða fyrir þingið, en þótt svo fari, sem flesta grunaði, að kjörbréfin sem landskjörstjórn gaf út eftir kosningar verði staðfest, og það hafi kannski alltaf verið planið, verður að gefa Birgi og nefnd hans það sem hún á.

Tillögurnar munu nær örugglega valda mörgum vonbrigðum en nefndin vann gott starf og fyrir liggur niðurstaða ítarlegrar rannsóknar þar sem flestum steinum var velt við. Þingmannsefni og kjósendur sem hyggjast leita réttar síns hjá dómstólum fá ómetanlegt innlegg í málsóknir sínar.

Við höfum öll lært eitthvað. Og þótt margir hrylli sig nú, eftir að ormagryfjan var opnuð, við tilhugsunina um það fúsk sem viðgengist hefur í framkvæmd kosninga allan líftíma lýðveldisins, getum við huggað okkur við að engan langar að leika þennan leik aftur við framkvæmd kosninga. Aldrei aftur.

Ljóst er að breyta þarf lögum og taka af skarið um ýmis þokukennd atriði. Efla þarf kosn­inga­eftirlit. Umboðsmenn flokka munu skilja hlutverk sitt betur og þau sem tilnefnd eru í kjörstjórnir munu hugsa sig vandlega um, vegna þeirrar ábyrgðar sem á herðum þeirra hvílir.

Og nú er boltinn hjá Alþingi. Rétt eins og forðum, þegar Alþingi þurfti að loknum ítarlegum rannsóknum að taka af skarið um hvort ákæra skyldi ráðherra; flokkssystkini og vinnufélaga.

Þótt nefndin hafi skilað greinargóðum niðurstöðum um framkvæmd kosninganna er hún ekki á einu máli um hvað gera skuli í framhaldinu. Nú á síðustu metrunum gætu flokkslínurnar verið að koma í ljós en þriggja eða fjögurra tillagna er að vænta frá nefndarmönnum sem leiddar verða til lykta á morgun.

Þá er vonandi að þingmenn skilji pólitíkina eftir fyrir utan þingsalinn og gleymi því ekki að Alþingi á að vera skipað þeim sem kjósendur í landinu velja, ekki þeim sem alþingismenn sjálfir vilja vinna með. Líkt og í Landsdómsmálinu er ákvörðun þingheims í eðli sínu lögfræðileg og siðferðileg, en hvorki praktísk né pólitísk.

Til þess eru vítin að varast þau. Látið sannfæringuna frekar en flokkslínur ráða.