Ég elska fuglana í hverfinu sem margir dvelja í kringum húsið okkar árið um kring. Á vorin erum við vakin fyrir allar aldir með ástarsöngvum enda kviknar fljótt líf í nálægum görðum. Fuglarnir una sér vart hvíldar við að koma upp ungviðinu, en þegar haustar eru ungarnir flognir á braut og hörð lífsbaráttan blasir við. Einhverjir þeirra verða vonandi í vetrarfóðrun hjá okkur – enda á við góða hugleiðslu að sitja með kaffibolla við gluggann og horfa á þá háma í sig steiktan lauk og rúsínur.

En það eru fleiri en fiðraðir ungarnir sem fljúga úr hreiðrinu, því nú sitjum við hjónin ein í kotinu eftir að síðasta afkvæmið flutti að heiman. Margir fagna þessum tímamótum – það sést víða. Miðaldra hjón verða eins og beljur á vorin – hlaupa út og suður og telja að nú sé þeirra tími loks kominn. Matreiðsla á kvöldin leggst af, enda tekur því ekki að elda fyrir tvo og matseðlar á veitingahúsum í hverfinu lærast utanbókar. Tóm herbergi og auðir skápar fyllast fljótt af dóti hjónanna, enda loks hægt að dreifa almennilega úr sér á eigin heimili.

En eftir að dóttirin flaug á vit ævintýranna nú á haustdögum, sat eftir klumpur í hálsinum dagana á eftir og engin fagnaðarlæti brutust út. En þetta er víst lífsins gangur og við eins og fuglarnir fylgjumst stolt með ungunum hefja sig til flugs og halda út í lífið. Á þessari stundu er treyst á að uppeldið skili sér alla leið, að ungarnir plumi sig og eigi gæfuríkt líf í vændum.

Hundarnir á heimilinu tóku þessum tímamótum hins vegar fagnandi enda fljótir að leggja undir sig herbergi heimasætunnar og ólíklegt að það verði gefið eftir átakalaust.