Efnahagslegur óstöðugleiki á Íslandi hefur löngum haldist í hendur við þá staðreynd að gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins hefur byggst á fáum og einhæfum útflutningsatvinnuvegum. Með hröðum uppgangi ferðaþjónustunnar eftir fjármálahrunið tókst, sem mjög hafði verið kallað eftir, að fjölga lykilstoðum hagkerfisins en atvinnugreinin á það hins vegar sammerkt með þeim sem fyrir voru að reiða sig á náttúruauðlindir sem setur starfseminni vaxtarskorður. Enginn efast um að ferðaþjónustan, sem er nú tekin að rísa að nýju eftir faraldurinn, hefur fest sig í sessi sem ein mikilvægasta gjaldeyrisskapandi atvinnugrein þjóðarinnar en hagvöxtur framtíðarinnar mun tæplega koma úr þeirri átt – þar þurfum við frekar að reiða okkur á vöxt hugvitsdrifinna fyrirtækja, stundum nefnt alþjóðageirinn.

Nú þegar við sjáum út úr kófinu, með skuldsettan ríkissjóð og siglum brátt í kosningar, er mikilvægt að stjórnvöld fari að einblína á aðgerðir sem miða að því að efla samkeppnishæfni og skapa ný störf. Í nýrri skýrslu Viðskiptaráðs, sem fjallar um Ísland í alþjóðasamkeppni, eru settar fram margar tillögur sem ættu að gagnast í þeirri umræðu. Þar er bent á að þau markmið sem sett hafi verið fyrir hartnær áratug, sem fólust í því að ná um 10 prósenta árlegum vexti útflutningsverðmæta í alþjóðageiranum, hafi ekki gengið eftir og vöxturinn aðeins verið að jafnaði um nærri þrjú prósent á ári. Þótt margt hafi áunnist, sem sýnir sig meðal annars í þeim öflugu nýsköpunarfyrirtækjum og vísisjóðum sem hafa sprottið upp á undanförnum árum, þá þurfum við að gera betur. Slíkt er í senn forsenda að bættum lífsskilyrðum til lengri tíma en eins mikilvægt, með því að fjölga útflutningsstoðunum, til að gera hagkerfið minna útsett fyrir efnahagsáföllum.

Stöðugleiki í opnu örhagkerfi eins og Ísland er skiptir lykilmáli fyrir framgang alþjóðageirans.

Það er margt sem er dragbítur á samkeppnishæfni alþjóðageirans. Í skýrslu Viðskiptaráðs er nefnt að regluverkið hérlendis sé mun meira íþyngjandi, einkum er snýr að óskilvirkri samkeppnislöggjöf, í samanburði við nágrannalönd okkar, skattar – sem hafa verið hækkaðir 253 sinnum á árunum 2008 til 2021 en aðeins lækkaðir 88 sinnum yfir sama tíma – eru með því hæsta sem gerist og þrátt fyrir mikilvægar breytingar þá stöndum við enn hinum Norðurlöndunum að baki þegar kemur að stuðningi við rannsóknir og þróun. Fyrsta skrefið til að bæta þar úr væri að gera tímabundna hækkun endurgreiðslna vegna rannsókna og þróunar, sem átti aðeins að gilda fyrir árin 2020 og 2021, varanlega.

Fjöldi skattabreytinga er aðeins eitt dæmið af mörgum sem endurspeglar skort á fyrirsjáanleika í starfsumhverfi fyrirtækja. Stöðugleiki í opnu örhagkerfi eins og Ísland er skiptir lykilmáli fyrir framgang alþjóðageirans og þá þarf hagstjórn hins opinbera, peningastefnan og vinnumarkaðurinn að vinna vel saman. Í fyrsta sinn í lýðveldissögunni höfum við tækifæri til að vera með lága vexti og gengisstöðugleika, sem grundvallast einkum á auknum trúverðugleika peningastefnunnar og miklum gjaldeyrisforða, en á sama tíma hefur vinnumarkaðurinn verið á rangri leið síðustu ár sem einkennist af viðvarandi óróa og launahækkunum langt umfram öll þolmörk atvinnulífsins. Hlutfall launa í verðmætasköpuninni er því nær hvergi hærra á meðal ríkja OECD en á Íslandi. Ef fram fer sem horfir mun eitthvað láta undan, annaðhvort þrálátara mikið atvinnuleysi eða meiri verðbólga. Valið er okkar.