Íslenskir námsmenn voru fjölmennir í Kaupmannahöfn á 19. öld. Þessir piltar blönduðu lítið geði við Dani. Þeir héldu hópinn og töluðu við aðra Íslendinga um íslensk málefni og heimsku Dana.

Á dögunum var ég einn í íslenskri sendinefnd á stórri geðráðstefnu í Gautaborg. Í öllum kaffi- og matartímum neyddist ég til að tala við útlendinga á útlensku. Enginn hafði minnsta áhuga á íslenskum vandamálum eins og Íslandsbankasölunni. Ég reyndi að tala við einhverja Dani um Útlendingastofnun og brottvísun Írakanna um miðja nótt en þeim var slétt sama. Þetta var daglegt brauð fyrir þeim og enginn æsti sig upp út af manninum í hjólastólnum. Ég sat því uppi aleinn með íslensk vandamál og þjóðlega sektarkennd.

Á sama tíma var haldin loftslagsráðstefna í Egyptalandi að viðstöddu fjölmenni. Þar voru meðal gesta fjörutíu og fjórir Íslendingar á öllum aldri með þverpólitíska lífssýn. Þetta fólk þurfti ekki að glíma við einmanaleika og einangrun heldur gat spjallað hvert við annað þótt úti geisaði hamfarahlýnun. Þau svömluðu og sigldu saman í plastmenguðum sjó og riðu á kameldýrum í sandinum. Mestu skipti að þátttakendur höfðu mjög gaman af þessu bekkjarferðalagi til útlanda með öllum hinum krökkunum.

Gagnsemin er kannski umdeilanleg en aðalatriðið er að senda aldrei fámennari sendinefnd en svo að engum leiðist eða finni fyrir einmanaleika. Þannig má koma í veg fyrir þunglyndi og tilvistarkvíða. Þetta vissu íslensku námsmennirnir í Kaupmannahöfn forðum sem töluðu bara hver við annan. Það er ekkert eins spennandi og að tala við annan Íslending í útlöndum um séríslensk vandamál.