Næsta víst er að veiðifólk bíður komandi mánudags með eftirvæntingu en þá hefst rjúpnaveiðitímabilið og leyfilegt er að veiða rjúpu út mánuðinn að undanskildum miðvikudögum og fimmtudögum.

Samkvæmt lögum eru allir fuglar sem hér lifa, hvort sem er skemur eða lengur, friðaðir, nema annað sé tekið fram í reglugerð. Auglýst veiðitímabil gilda um þá fugla sem leyfilegt er að veiða á vissum tímum og er það Náttúrufræðistofnun sem metur stofninn og gefur Umhverfisstofnun ráðleggingar um veiðiþol.

Árin 2003 til 2005 var sett á alfriðun á rjúpu vegna merkja um að stofninn væri í lágmarki og hefði hrakað jafnt og þétt frá sjötta áratug síðustu aldar. Ríkti samstaða um að grípa yrði til aðgerða þó svo að deildar meiningar hafi verið um hvaða aðgerða. Sölubann, stytting veiðitíma, aukning friðlanda og hvatningarátak til veiðimanna voru þær aðgerðir sem ráðist var í og hafa verið við lýði síðan.

Árið 2005 þegar rjúpnaveiði var aftur leyfð var veiðiþol rjúpnastofnsins metið um 70 þúsund rjúpur sem var mikil minnkun frá því sem áður var en til samanburðar má geta þess að árið 1996 voru veiddar hér á landi 158.363 rjúpur. Í ár er veiðiþolið metið 20 þúsund rjúpur og hafa verið uppi raddir um að banna veiðar alfarið í ár enda stofninn kominn niður fyrir það sem var þegar alfriðun var sett á í tvö ár. Hafa talsmenn Jarðarvina annars vegar og Skotvís hins vegar viðrað sínar skoðanir á málefninu í samtölum við Fréttablaðið og sitt sýnist hverjum um ástæður minnkandi stofnsins.

Hitt er þó óumdeilt: Rjúpum fækkaði frá 2020 til 2021 og í sumum landshlutum nálgast stofninn lágmark.Afkoma unga hefur versnað og til lengri tíma litið hefur rjúpnastofninum hnignað.

Auðvitað er veiðin ekki eina breytan í fækkun stofnsins sem nú telur um 248 þúsund fugla. Fæðuframboð, ágangur mannsins og fæðuöflun fálkans, sníkjudýrasýkingar, veðurfar og fleira hefur áhrif. Snjóhvít í vetrarham vappar rjúpan útibarin með loðnar tær, í mosa og grasi enda líklega ekki fengið memóið um hlýnun jarðar. Það er því margt sem kemur til, ekki bara veiðiglaðir Íslendingar í leit að jólasteikinni – en það er þó eitt sem hafa má áhrif á. Umhverfisstofnun leggur til hófsemi við veiðar og mælist til þess að hver veiðimaður felli ekki fleiri en fjórar rjúpur. Það er varla til of mikils ætlast að veiðimenn fari að þeim tilmælum.

Þá kannski fá þeir að fara aftur næsta ár.