Það vill bregða við að litið sé á ráðherra og það ráðuneyti sem hann eða hún stýrir sem tvo aðskilda hluti. Ráðuneytið sé fagleg stofnun og síðan er ráðherra í pólitík. Þetta er auðvitað rangt, allt sem ráðuneyti gerir er í nafni ráðherra. Ráðuneyti hefur ekki sjálfstæða skoðun eða stefnu í nokkru máli, ráðherrann er alltaf ábyrgur fyrir öllu því sem ráðuneyti gerir eða gerir ekki.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég sá frétt um það að umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefði veitt fjölmiðlaverðlaun á dögunum. Til þessa hafði ráðuneytið skipað dómnefnd sem lagði mat á fréttaflutning sem snéri að þeim málaflokkum sem féllu undir ráðuneytið. Og merkilegt nokk þá voru tilnefndar til verðlauna umfjallanir sem áttu það sammerkt að sýna að mati ráðuneytisins góðan skilning á þeim málum sem ráðherrann bæri ábyrgð á. Um það snýst málið, fréttaumfjöllun sem ráðherrann telur faglega, skynsamlega og vel unna.

Í fyrsta lagi þá er merkilegt að aðrir ráðherrar hafi ekki tekið upp á því að verðlauna blaðamenn fyrir þóknanlega umfjöllun. Sjávarútvegsráðherrann gæti t.d. verðlaunað 200 mílur Morgunblaðsins fyrir skynsamlega umfjöllun um kvótakerfið og fjármálaráðherrann gæti verðlaunað Viðskiptablaðið fyrir næma umfjöllun um fjárlög.

Í öðru lagi, hvað er að blaðamönnum, finnst þeim í lagi að hljóta tilnefningar frá ráðherrum fyrir þóknanlega umfjöllun?

Í þriðja lagi þá er fyndið að verðlaun fóru til Tómasar Guðbjartssonar læknis, en sérstaklega var tekið fram að hann hefði „nýtt fjölmiðla“ í umfjöllun sinni um virkjanamál. Fjölmiðlamenn hljóta að vera afar stoltir af því að ráðherra hafi verðlaunað sérstaklega hversu sniðuglega þeir voru „nýttir“.