Mest óþolandi eiginleiki flestra frægra leikara er að þegar öllu er á botninn hvolft þá eru þeir mjög hæfileikaríkir, vinnusamir og þrautseigir. Vissulega eru þeir jafnan mjög fríðir ásýndum og þægilegasta ályktunin fyrir okkur hin er að allt þetta fólk hafi náð árangri fyrst og fremst í krafti áskapaðrar fegurðar. Fyrir nokkrum árum barst mér til eyrna saga af heimsfrægum amerískum leikara sem fór í hálendisgöngu í góðum hópi á Íslandi. Hann er stórstjarna á hvíta tjaldinu þar sem hann nýtur góðs af því að vera svo snoppufríður að eiga einnig ágætan feril sem fyrirsæta.

Hálendisgöngur geta reynt verulega á líkamleg og andleg þolrif hvers manns, og á það ekki síst við um fólk sem er óvant „íslenskum aðstæðum“ – þar sem veður er býsna ólíkt því sem íbúar byggilegra heimshorna eiga að venjast. Í gönguhópi leikarans vakti það athygli að þegar komið var í náttstað á kvöldin, og lúnir göngumenn bjuggu sig undir verðskuldaða hvíld og gleði, þá fór stórstjarnan mjög varlega í veitingarnar og laumaðist svo afsíðis þegar líða tók á kvöldið. Í ljós kom að hann þurfti næði til þess að framkvæma sína daglegu æfingarútínu, sem hann sleppti aldrei óháð því hvort hann væri heima eða heiman, saddur eða svangur, sprækur eða illa upplagður.

Undantekningalítið kemur í ljós að dugnaður og seigla eru mikilvægustu eiginleikar þeirra sem ná árangri sem stórleikarar í kvikmyndum; algjörlega burtséð frá genetískum happdrættisvinningum. Hið sama gildir vitaskuld um þá sem ætla að verða góðir lögfræðingar, bankamenn, íþróttamenn, veitingamenn, sóttvarnalæknar, kennarar, rithöfundar og lögregluþjónar.

F-in þrjú

Góður maður sagði mér fyrir skömmu frá þeirri ágætu amerísku kenningu að gott væri að meta starfsánægju út frá þremur þáttum, á ensku eru það kölluð „f-in þrjú“ – fortune, fame, fun – sem útleggja má sem fjármuni, frama og fjör. Til þess að njóta sín í starfi þarf vinnan að uppfylla að minnsta kosti tvo þessara þátta og helst alla þrjá að einhverju leyti. Fjármunirnir skýra sig sjálfir, há laun geta gert vinnu aðlaðandi eða þolanlega. Frami getur hins vegar verið flóknara fyrirbæri, því í honum getur falist að maður njóti virðingar meðal samstarfsfólks eða í jafningjahópi – eða verið landsfrægur eða heimsfrægur. Fjörið er svo kannski, þegar öllu er á botninn hvolft, eftirsóknarverðasti eiginleikinn í starfsvali. Að finnast virkilega gaman í vinnunni er örugglega eitt það besta sem getur komið fyrir hverja manneskju. Og ekki nóg með það heldur er það beinlínis fallegt þegar fólk hefur köllun, metnað og ástríðu fyrir því hlutverki sem því er treyst fyrir.

Vafalaust er það rétt sem oft er haldið fram að ein mesta hættan við nútímalegt starfsumhverfi sé að fólk brenni yfir eða út. En ef fólki finnst raunverulega vera fjör að vinna, þá er ótrúlegt hversu mikið starfsþrekið getur orðið.

Með vinnuna á heilanum

Stórleikarar sem gera armbeygjur á hálendi Íslands löngu eftir að þeir eru orðnir nógu ríkir til þess að þurfa ekki að vinna framar eru dæmi um einstaklinga sem eru drifnir áfram af ástríðu, gleði og metnaði fyrir hlutskipti sínu í lífinu – það er fjörið sem drífur þá áfram löngu eftir að framinn og fjármunirnir eru tryggðir til lífstíðar.

Fæst getum við orðið heimsfrægir listamenn. En svipuð lögmál gilda víða um starfsánægjuna. Útum allt er til fólk sem sinnir sínum hlutverkum af sambærilegum metnaði og alúð. Þetta höfum við séð í tengslum við faraldurinn. Vísindafólk í rannsóknarstofum, hjúkrunarstarfsfólk og fjölmargir aðrir um heim allan hafa gefið allt sem það á – og rúmlega það til að koma samfélögum sínum og heiminum til bjargar. Mjög ósennilegt verður að teljast að fjárhagsleg sjónarmið hafi drifið þetta fólk áfram. Hér heima höfum við horft upp á fyrirmyndir sem hafa unnið baki brotnu alla daga í heilt ár en aldrei látið toga upp úr sér hálft orð um þreytu. Og bakvið tjöldin, útum allt, er fólk sem leggur á sig margfalda vinnu og er vakið og sofið yfir verkefnum sínum. Flest af þessu fólki eru opinberir starfsmenn og ekki með háar tekjur miðað við vinnuframlag og mikilvægi – langt í frá. Þetta er fólk sem þarf að fá laun til þess að geta sinnt hlutverki sínu, en er greinilega ekki einungis að vinna vinnuna sína til að fá launin. Tímarnir sem við lifum nú hafa sýnt vel hversu dýrmætt það er að í samfélaginu sé til fólk sem er tilbúið að leggja allt í sölurnar til þess að sinna skyldum sínum. Slíkt krefst persónulegra fórna og fjárhagslegu verðlaunin eru gjarnan rýr. En án fólks sem er tilbúið að leggja á sig slíkt erfiði með bros á vör – og hafa vinnuna sína algjörlega á heilanum – væri samfélagið ekki bara fátækara, heldur sennilega óstarfhæft.