Kæra Sundhöll, ÍTR og stjórnendur.

Ég mála ykkur mynd:

Það er sólarlag að vetrarkvöldi, létt snjófall og fólk flykkist að sundlaugum landsins fyrir félagsskap og hlýju. Í sundlaugunum má finna nær fullkominn þverskurð af samfélaginu. Þar situr fullorðna fólkið í pottinum og ræðir málefni líðandi stundar. Í innilauginni leika sér leikskólabörn og ungir foreldrar. Í kalda pottinum situr íþróttagarpurinn og í gufunni á fundur eldri borgara sér stað. Í djúpu lauginni synda unglingar á sundæfingu, hvattir áfram af þjálfara. Yngri systkini þeirra hlaupa í litlum hópum upp stigann í rennibrautina og trufla mikilvægar samræður nýstúdentanna í grunna pottinum með hlátrasköllum sínum.

Þetta er nær fullkominn þverskurður eins og sjá má, en þó eru örfáir hópar sem ekki komast með í þessa ímynduðu sundferð, en það eru þau sem ekki geta nýtt sér þá búningsaðstöðu sem sundlaugin býður upp á. Í þann hóp falla m.a. foreldrar með börn á fyrstu árum grunnskóla, eins og kom upp í samfélagsumræðunni nú fyrir nokkrum mánuðum. Samkvæmt reglugerðum mega þau nefnilega ekki fara með foreldrum sínum í klefa séu þau af mismunandi kynjum, heldur eiga þau að sækja klefa sem samsamar kyni þeirra sjálfra, ein síns liðs, sem þau þora ekki endilega. Einnig falla í þann hóp öll þau sem ekki falla fullkomlega að kynjatvíhyggjunni, svo sem intersex, trans og kynsegin fólk. Þrátt fyrir að flestar sundlaugar séu nú komnar með sérklefa þá er oft erfitt að nálgast þá. Einungis einn til tveir klefar eru til staðar í hverri laug (nema Laugardalslaug) sem þýðir að ef t.d. eldrimannaklúbburinn (átta manneskjur) úr gufunni þyrfti allur að komast upp úr í gegnum sérklefana tvo tæki það í það minnsta klukkutíma, þar sem aðeins er rými fyrir eina manneskju í einu í hverjum klefa (á flestum stöðum). Þetta þýðir að ef hópur ungmenna sem væru öll kynsegin ætlaði í sund saman þá væri það hægara sagt en gert, og í raun ekki hægt með góðu móti nema einhver þeirra færu í klefa sem ekki eru ætlaðir þeim.

Það er ekki auðveld lausn til á þessu máli í flestum sundlaugum vegna þess hvernig húsakostur þeirra hefur verið byggður upp í kringum tvo jafn stóra hópa, karla og konur, og hannaður í kringum þarfir þeirra. Það er hins vegar ein sundlaug sem sker sig úr, en það er Sundhöll Reykjavíkur. Þar eru 2 sérklefar og 5 stærri klefar: tveir úti (einn karla og einn kvenna) og þrír inni: einn karla (sá eldri) og tveir kvenna, (sá eldri sem er nýuppgerður og sá nýi sem var byggður á sama tíma og nýja útilaugin.) Því liggur beint við að í Sundhöllinni verði einn þessara kvennaklefa gerður að fjölskylduklefa. Slíkur klefi gæti því nýst fjölbreyttum hópi fólks, eða í raun bara öllum þeim sem vilja, hvort sem það eru barnafjölskyldur sem gætu þá hjálpast að með börnin, vinahópar hinsegin ungmenna, já, eða bara eldrimannagengið úr gufunni. Enn væri þó hægt að nýta sér kynjuðu klefana tvo, bæði inni og úti, fyrir þau sem finna sig betur í því skipulagi. Jú, og þau sem þyrftu á aðbúnaði sérklefanna að halda hefðu þá greiðari aðgang að honum. Því væri þessi skipulagsbreyting einungis til þess að gera laugina aðgengilegri stærri hóp fólks. Þessi skipulagsbreyting gæti einnig verið góð til þess að sýna fram á þörfina á slíkum fjölskylduklefum, en þá væri hægt að sjá hvort vert væri að leggja í framkvæmdir í öðrum sundlaugum í svipuðum stíl eða hvort sérklefarnir sem til eru dugi til þess að mæta fjölbreyttum þörfum allra þeirra sem ekki geta nýtt sér hina hefðbundnu kynjuðu klefa.

Undir þessa beiðni skrifa hér með ofantaldir aðilar og hvetjum við öll þau sem líst vel á hugmyndina til skrifa undir skjal á vefslóð þessari svo stjórnendur ÍTR geti séð að þennan klefakost myndu mörg kjósa að nýta sér.

Fé­lög skrifuð undir:
Q - fé­lag hin­segin stúdenta
Stúdenta­ráð Há­skóla Ís­lands
Ung­menna­ráð Sam­takanna ‘78
Trans Vinir - Hags­muna­sam­tök for­eldra og að­stand­enda trans barna og ung­menna á Ís­landi
Trans Ís­land
Hinung

Ein­staklingar skrifaðir undir:
Mars M. Proppé
Ólöf Bjarki Antons
Elías Rúni
Krist­mundur Péturs­son
Alex Diljar Birkisbur Hellsing
Flóki Rán Ægis­son
Birta B. Kjer­úlf
Reyn Alpha Magnúsar
Sig­týr Ægir Kára­son
Sól­veig Ástu­dóttir Daða­dóttir, for­seti Q-fé­lagsins
Anna María Kjeld
Sindri Freyr Ásgeirsson, for­seti Röskvu
Þór­hildur Elínar­dóttir Magnús­dóttir
Agnes Jónas­dóttir
Álfur Birkir Bjarna­son
Sigur Huldar Ellerup Geirs, for­maður Hinung
Joseph Bene­dict Armada
Sól­veig Marý Einars­dóttir
Karen Ýe Sigur­björns­dóttir