Stundum er sagt um fjölmiðlamenn að þeir séu uppteknastir af sjálfum sér. Það er sennilega ekki fjarri sanni. Það bar til tíðinda í líðandi viku að mennta- og menningarmálaráðherra birti reglugerð um stuðning við fjölmiðla í kjölfar heimsfaraldursins. Það var reyndar vonum seinna.

Stuðningurinn var rökstuddur með því að mikilvægt væri að haldið væri uppi öflugum og traustum íslenskum fréttaflutningi, þó kófið ylli tímabundnum samdrætti í auglýsingatekjum. Reglugerðin er gefin út með stoð í lögum sem sérstaklega voru samþykkt sem hluti af aðgerðarpökkum stjórnvalda. En þetta er einskiptisaðgerð, stuðningur nú – en svo ekki meir.

Það er ekki til vitnis um styrka stjórn þingmeirihlutans og bendir til vandræðagangs innan raða stjórnarflokkanna.

Reyndar hafði ráðherrann haft lengi í bígerð svonefnt fjölmiðlafrumvarp, sem koma átti sem eins konar mótvægi við sogkraft Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði og hugsað til einhverrar framtíðar. Fyrir lá heimild í fjárlögum að til þessa verks yrði varið fjögur hundruð milljónum króna á yfirstandandi fjárlagaári. Ekkert hefur orðið úr því máli, þó ítrekað hafi verið samið við ýmis brot stjórnmálaafla sem fulltrúa eiga á Alþingi. Sumir gætu setið hjá og aðrir greitt atkvæði á móti, án þess að trufla framgang málsins, en menn gætu haldið andliti gagnvart sínu baklandi.

Samt hefur þetta að engu orðið. Það er ekki til vitnis um styrka stjórn þingmeirihlutans og bendir til vandræðagangs innan raða stjórnarflokkanna.

Einn þeirra, Sjálfstæðisflokkurinn, hefur verið við völd í landinu, sleitulaust að heita má, um áratuga skeið. Landsfundir flokksins hafa ítrekað ályktað um að leysa þurfi úr stöðunni sem yfirburðir Ríkisútvarps á auglýsingamarkaði hafi komið upp. Ekkert hefur orðið úr því.

Sé litið næst okkur þekkist það ekki að ríkisfjölmiðill sogi til sín stóran hluta tekna á auglýsingamarkaði. Horfa þarf nokkuð langt til að finna dæmi þess, jafnvel til landa sem áður voru fyrir austan tjald.

Um þær mundir sem einkareknir fjölmiðlar heyja harða baráttu fyrir tilvist sinni, blæs ríkisfjölmiðillinn út, enda tryggðar tekjur af nær öllu því sem kvikt er. Bent hefur verið á að með hverju fyrirtæki sem hér er stofn­að og með hverjum þeim sem hingað flyst, aukast tryggð­ar tekjur miðilsins – innheimtar með harðfylgi af innheimtumanni ríkissjóðs.

Menningarhlutverki stofnunarinnar er prýðilega sinnt. Þar má finna fjársjóði, hvort sem er í sjónvarpi, útvarpi eða neti. Kannanir hafa sýnt að fréttaflutningur stofnunarinnar nýtur trausts landsmanna. Gagnrýnin beinist því ekki að þessum þáttum, heldur hvaðan féð kemur sem greiðir fyrir starfsemina.

Það er samt ekki sérstaklega góð hugmynd að einkareknir fjölmiðlar eigi að þiggja fé úr ríkissjóði með einhvers konar áskriftarfyrirkomulagi. Allra síst þegar við blasir einföld og skjótvirk leið til að rétta þessa stöðu.

Stjórnmálamenn verða að átta sig á að Ríkisútvarp­ið þarf að fara af auglýsingamarkaði. Gatið, sem þá mynd­ast í tekjuöflun stofnunarinnar er minna en virðist fljótt á litið. Hluta auglýsingatekna er varið í að afla þeirra. Svo er auðvitað sjálfsagt að Ríkisútvarpið hagræði í rekstri sínum eins og önnur fjölmiðlafyrirtæki og í reynd flest fyrirtæki í landinu. Á það hefur verið bent áður.