Það er hvimleið tilhneiging í opinberri umræðu að hjóla í manninn en ekki efnið. Iðulega eru það þau sem ekki hafa góð málefnaleg rök fram að færa sem gerast sek um slík brot. Fátíðara er að útbreiddur fjölmiðill falli í slíka gryfju. Fréttablaðið varð þó uppvíst að sérkennilegri árás á mig í skoðunardálknum Frá degi til dags í þriðjudagsblaðinu þann 14. janúar.

Sagt var berum orðum að ástæða fyrir gagnrýni minni á stjórnsýslu Hafrannsóknastofnunar væri að ég vissi að með því að „kyssa hring norsku eldisrisanna“ ætti ég von á því að geta endað einn daginn í þægilegu starfi! Rakalaus er þessi þvættingur og er illmælgi þessi augljóslega sett fram í annarlegum tilgangi. Mér vitandi hefur blaðið ekki fjallað um gagnrýni mína eða gert sér far um að leita til mín eða annarra eftir frekari sjónarmiðum og útskýringum, til að upplýsa lesendur sína um málið á hlutlægan og faglegan hátt. En augljóslega telur blaðið að málið heyri undir opinbera umfjöllun fyrst efnistök dálksins voru með þessum hætti.

Ekki er ástæða til að elta ólar frekar við þetta tiltekna skítkast. En það er ástæða til að velta upp þeirri spurningu hvort Fréttablaðið hafi misst skynbragðið fyrir raunverulegri baráttu fólks víðs vegar um landið fyrir lífsafkomu sinni og tilverurétti. Er blaðið virkilega svo fjarlægt fólkinu í landinu að það áttar sig ekki lengur á mikilvægi verðmætasköpunar og uppbyggingar starfa í einkageiranum? Hvernig gat blaðið öðruvísi horft fram hjá því að ég, sem varaþingmaður í Norðvesturkjördæmi, er einfaldlega að tala fyrir hagsmunum fólks á Vestfjörðum og víðar eftir bestu sannfæringu? Eiga þeir sem gefa sig að störfum í almannaþágu virkilega framvegis von á því að Fréttablaðið leggist á sveif með þeim sem hafa það eitt fram að færa að rífa niður og snúa út úr og eigna mönnum annarlegar hvatir fyrir málstað sínum? Gildir þá einu hvar á ritstjórnarsíðu slíkar árásir birtast.

Stjórnendur og eigendur Fréttablaðsins eru nú í dauðafæri á því að komast í skjól ríkisjötunnar með rekstur sinn með frumvarpi menntamálaráðherra um ríkisframlög til fjölmiðla. Fólk á Vestfjörðum, sem á allt sitt undir eigin verðmætasköpun, er ekki svo heppið. Ekkert frumvarp er í þinginu sem kveður á um slíkt ríkisframlag til þeirra. Það þarf að vinna fyrir sér sjálft og væri óskandi að Fréttablaðið sýndi þeirri baráttu skilning.