Þann 17. júlí sl. var nýr Sólvangur opnaður hér í Hafnarfirði. Um er að ræða 60 rýma hjúkrunarheimili sem mun leysa gamla Sólvang af hólmi. Gamli Sólvangur mun áfram gegna hlutverki í þjónustu við aldraða og þar verða jafnframt 33 hjúkrunarrými. Í Hafnarfirði hefur því fjölgað um samtals 34 hjúkrunarrými og er það mikið fagnaðarefni. Þjónusta við eldri borgara þarf að vera fagleg og góð og með opnun nýs Sólvangs var stigið risastórt skref í að bæta og efla þjónustu við eldri borgara. Fyrstu íbúarnir flytja inn um miðjan ágúst.

Í ágúst 2018 vakti fjölskylduráð athygli á þeirri alvarlegu stöðu sem uppi er í dagdvalarmálum fyrir fólk með heilabilunarsjúkdóma. Biðlistar langir og biðtími eftir plássi langur. Fjölmiðlar tóku upp bókun fjölskylduráðs og var fjallað um stöðuna í málefnum fólks með heilabilunarsjúkdóma úti um allt land. Stjórnmálamenn, aðstandendur og fagfólk tóku þátt í umræðunni, bæði í viðtalsþáttum, ljósvakamiðlum, viðtölum í blöðum og í aðsendum greinum. Allir sammála um að það þyrfti að gera eitthvað í þessum málum þar sem heilabilunarsjúkdómar hafa ekki bara áhrif á sjúklinginn heldur nánustu aðstandendur, fjölskyldu og vini. Það er nauðsynlegt fyrir einstakling með heilabilunarsjúkdóm að komast í dagdvöl til að fá þjálfun og örvun.

Fjölskylduráð ákvað því að Hafnarfjarðarbær mundi leggja til húsnæði fyrir dagdvöl og óskað var eftir rekstrarheimild frá ríkinu fyrir 12 dagdvalarrýmum fyrir fólk með heilabilunarsjúkdóma. Við opnun nýs Sólvangs tilkynnti Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra að búið væri að samþykkja 12 dagdvalarrými. Í Hafnarfirði eru nú þegar 22 dag­dvalarrými fyrir fólk með heilabilunarsjúkdóma og með þessari viðbót verða þau 34.

Fyrir hönd fjölskylduráðs þakka ég ráðherra fyrir þessa viðbót í dag­dvalarrýmum fyrir fólk með heilabilunarsjúkdóma. Þessi viðbótardagdvalarrými minnka biðlista og bæta þjónustu.

Það er bjart fram undan í Hafnar­firði. Bæjarstjórn hefur það á sinni stefnuskrá að bæta þjónustu og það hefur svo sannarlega verið gert. Við höldum áfram á þessari braut og fram undan eru mörg krefjandi og skemmtileg verkefni sem ég hlakka til að takast á við með því frábæra fólki sem starfar hjá Hafnarfjarðarbæ.