Eitt það mikilvægasta þegar farið er í frí með ómegðina, fjóra unglinga, er að tryggja gott netsamband og helst ókeypis WiFi. Annars verður bara tuðað hringinn og ég get staðfest að það er ekki gaman að hlusta á það.

Líf okkar og samfélag eru orðin svo háð tækni og tengingum að halda mætti því fram að við værum orðin vélrænar lífverur, þar sem líkami og tæki renna saman. Fyrsta iðnbyltingin stillti manninum upp andspænis vélunum en í fjórðu iðnbyltingunni virðumst við hafa runnið saman við vélina. Hin fjögur fræknu, tæknivæddu unglingarnir mínir, eru með eitt auga á símanum og hitt á undrum íslenskrar náttúru, í hringferðum kófsins. Sjálfræðið í samrunanum, ein stærsta siðferðisspurning okkar tíma, kannski umdeilanlegt.

Engu að síður er framtíð mannkyns að miklu leyti undirorpin tæknilausnum sem framlengja líf okkar. Hver er munurinn á því að taka efnasambönd í formi lyfja, til að ráða við sjúkdóma og lifa lengur, og því að vera með tæknilausnir undir húðinni? Gangráðurinn sem tengdapabbi er með sýnir samruna líkama og tækni, sem við erum orðin vön. Þó að eitthvað hafi aldrei verið gert þá þýðir það ekki að það sé ekki hægt.

Tæknin færir okkur margar áskoranir en einnig fjölda tækifæra. Samband okkar við tæknina er flókið og líklega þurfum við að uppfæra ýmis siðferðileg álitamál sem tækifærin færa okkur. Það væri voða þægilegt að láta græða RFID flögur í hin fjögur fræknu, til að vera viss um staðsetningu þeirra í ferðalögum lífsins. En ég veit það má ekki. Ennþá.