Skoðun

Fjölgun úrræða þolir ekki lengri bið

​Það er skelfilegt að barn hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi inni á meðferðarstofnun. Það skelfilega atvik undirstrikar nauðsyn þess að breyta þarf áherslum í málefnum ungra fíkla og barna í vanda

Það er skelfilegt að barn hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi inni á meðferðarstofnun. Það skelfilega atvik undirstrikar nauðsyn þess að breyta þarf áherslum í málefnum ungra fíkla og barna í vanda. Þess vegna fagna ég því að ekki eigi lengur að blanda börnum með fullorðnum fíklum á Vogi. 

Börn og unglingar verða þó að hafa aðgang að meðferðarúrræði og mér finnst að borgin eigi að vinna að slíku með heilbrigðisráðherra. Þótt tölfræðilega fáir unglingar neyti vímuefna er neysla þeirra mun harðari en áður, eins og fram hefur komið undanfarið og grasrótarsamtök eins og Olnbogabörn og Rótin hafa haldið vel á lofti. Þess vegna er brýnt að bregðast fljótt við lokun bangsadeildar á Vogi. 

Mikilvægur árangur hefur náðst


Ég hef unnið lengi með unglingum í vanda í gegnum félagsmiðstöðvar og þekki vel þróun neyslu síðastliðin 20 ár. Ástæða þess að við sjáum ekki unglingafyllerí í miðbænum eða í undirgöngum, bílakjöllurum og afskekktum stöðum í jafnmiklum mæli í dag og fyrir 20 árum er einföld: Forvarnaraðilar hættu að hengja upp plaggöt um afleiðingar ofneyslu fíkniefna og hættu að öskra á börn að þau myndu DEYJA EF ÞAU DÓPA! Aðferð sem er skrítin í augum flestra barna en vekur bara forvitni, frekar en varúð hjá litlum hópi barna sem hefðu þurft að taka skilaboðin til sín. Slík nálgun vekur í raun forvitni á fíkniefnum og virkar þannig öfug fyrir hópinn sem þyrfti að taka skilaboðin til sín. 

Þess í stað fóru forvarnaraðilar að taka mark á rannsóknum og virkjuðu samtakamátt allra sem komu að málefnum barna; foreldra, íþróttafélaga, æskulýðsfélaga, félagsmiðstöðva, lögreglu og fleiri. Neyslutölur sýna svart á hvítu að vímuefnaneysla og reykingar unglinga hafa farið frá því að annar hver hefur drukkið og reykt í að innan við 5% unglinga hefur drukkið og nánast enginn reykir. 

Málefni ungs fólks eru stóru málin í borgarstjórnarkosningunum


Stóru málin sem sveitastjórnakosningarnar eiga að snúast um er hvernig við höldum áfram að skapa ungu fólki heilbrigð og uppbyggileg uppvaxtarskilyrði. Hvernig hjálpum við ungu fólki aftur til þátttöku í lífinu sem hefur villst af leið?

Við eigum að styðja vel við þá starfsemi sem þegar er til staðar. Það er til dæmis unnið mjög gott starf með ungum fíklum hjá Vinakoti og við eigum að fjölga slíkum úrræðum og styðja betur við þau. En við verðum að búa til ný meðferðarúrræði fyrir unga fíkla, þá helst koma því inn í heilbrigðiskerfið.

Ég vil beita mér fyrir því að Reykjavíkurborg vinni með heilbrigðisráðherra að stofnun meðferðarúrræða fyrir unga fíkla og börn sem glíma við vímuefnaneyslu. Samfélagið þarf síðan að eiga raunveruleg úrræði sem styður unga fíkla aftur til virkrar þátttöku í samfélaginu. Þar tel ég meðal annars að félagsmiðstöðvarstarfsfólk gegni lykilhlutverki í nánu samstarfi við velferðasvið borgarinnar til að fjölga úrræðum fyrir ungt fólk.

Forvarnir skila sér hundraðfalt til baka


Við getum einnig gert betur í að koma í veg fyrir að ungt fólk ánetjist vímuefnum og villist af leið, í það minnsta getum við tafið það ferli. Niðurstöður rannsókna eru afdráttarlausar og skýrar í þessum efnum og segja okkur að við þurfum að styrkja verndandi þætti í lífi barna. Vernandi þættirnir eru áhrif fjölskyldu, jafningahóps, virk þátttaka í skipulögðu íþrótta- og félagsmiðstöðvastarfi og hlúa vel að almennri vellíðan. 
Okkur hefur tekist vel að koma í veg fyrir neyslu 95% barna en við getum gert betur. Grunnstoðir forvarna þarf að styrkja enn frekar, þær þurfa að ná til allra barna á sama tíma og við þurfum að bæta neyðarúrræðin og meðferðaraðstoð við verst settu börnin. Enginn ætti að efast um gildi forvarna og úrræða fyrir börn því ekki er það bara sjálfsagt velferðarmál heldur sparar samfélagið 100 krónur með hverri krónu sem sett er í forvarnirnar.

Þorsteinn V. Einarsson
skipar 3. sæti á lista Vinstri grænna í Reykjavík.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Skoðun

Fjölgun hjúkrunar­fræði­nema við HA
Eydís Kr. Sveinbjarnardóttir

Skoðun

Breytt klukka – betri líðan
Erla Björnsdóttir

Skoðun

Að breyta í verki
Sandra Hlíf Ocares

Auglýsing

Nýjast

Tækifærin í ferðaþjónustu
Arnheiður Jóhannsdóttir

Um gildar „ástæður“ gyðingaofsókna og Vísindavef Háskóla Íslands
Lára Magnúsardóttir

Skrifaðu veggjöld
Hanna Katrín Friðriksson

Sannleikurinn um elstu konuna
Þorbjörg Gunnlaugsdóttir

Hnípin þjóð
Kolbrún Bergþórsdóttir

Frá Brexit til Íslands
Þorvaldur Gylfason

Auglýsing