Mikil orka íslenskra stjórnmála hefur farið í deilur um þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Stjórnmálamenn, fjölmiðlar og áhugamenn um stjórnmál hafa tekist á um málið. Svo hart að furðu sætir um ekki mikilvægara mál.

Umræður um orkupakkann stóðu í vor yfir í meira en 150 klukkustundir, þær lengstu í sögu þingsins. Þá fengu utanríkismálanefnd og atvinnuveganefnd Alþingis til sín tugi sérfræðinga. Stjórnlaust málþóf og yfirgangur á vorþingi kallaði á sérstakt samkomulag um framgang málsins.

Þriðji orkupakkinn lýtur að sameiginlegum orkumarkaði innan Evrópska efnahagssvæðisins. Honum er ætlað að tryggja frjálsa samkeppni á nýjum innri markaði Evrópu með raforku og gas, þvert á landamæri og stuðla að markaðsvæðingu og aðskilnaði framleiðslu og sölu raforku. Neytendavernd á sviði orkumála er styrkt og gagnsæi aukið. Sjálfstæði raforkueftirlits gagnvart aðilum á markaði og stjórnvöldum er eflt og setja á upp sameiginlega orkustofnun til að fylgjast með orkumarkaðinum og taka á ágreiningi.

Fjöldi rangfærslna og falsfrétta birtist í tengslum við orkupakkann. Andstæðingar sögðu hann skerða fullveldi þjóðarinnar. Alið var á ótta og tortryggni. Ættjarðarást var misnotuð. Þjóðrækni afflutt til þjóðrembu. Ranglega var því haldið fram í viðamikilli skýrslugjöf að þetta væri ein stærsta ákvörðun lýðveldistímans. Bullað var um sæstreng. Utanríkisráðherra bárust líflátshótanir. Til að bíta höfuðið af skömminni voru norsku samtökin Nei til EU dregin inn í stjórnmálaumræðu á Íslandi. Norskir gæta varla íslenskra hagsmuna?

En eftirtekja þeirra sem harðast börðust gegn orkupakkanum er broslega rýr. Þrátt fyrir linnulausa baráttu fornfrægs dagblaðs, útvarpsstöðvar og fjölda vefsetra situr lítið eftir. Heilsíðuauglýsingarnar, bæklingarnir, auglýsingarnar á samfélagsmiðlum, fundahaldið um allt land og skýrslugerðin skiluðu litlu. Blekkingarnar náðu ekki eyrum almennings.

Það kom ágætlega í ljós þegar varaforseta Alþingis voru afhentar tæplega 17 þúsund undirskriftir þar sem skorað var á Alþingi að hafna orkupakkanum.


Til samanburðar söfnuðust tæplega 70 þúsund undirskriftir um flugvöllinn sem Hjartað í Vatnsmýrinni.

Að endingu þurftu þingmenn að taka afstöðu á grundvelli upplýsinga en ekki upphrópana, staðreynda en ekki stóryrða. Þingið samþykkti með yfirgnæfandi meirihluta innleiðingu þriðja orkupakkans með 46 atkvæðum gegn 13.

Ljóst er að atlagan að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið tókst ekki. Ef eitthvað hefur stuðningur aukist við samninginn. Hann hefur verið dreginn fram í stjórnmálaumræðunni sem einn helsti hornsteinn velmegunar íslensku þjóðarinnar.