Um helgina fara fram for­seta­kosningar í okkar 76 ára gamla lýð­veldi. Tveir fram­bjóð­endur hafa gefið kost á sér og annan þeirra þekki ég til margra ára og að­eins af góðu, Guðna Th. Jóhannes­son sitjandi for­seta. Líkt og lang­flestum Ís­lendingum finnst mér að Guðni og eigin­kona hans, Eliza, hafi staðið sig frá­bær­lega í em­bætti og al­menn sátt ríkt um störf þeirra. Reyndar heldur mót­fram­bjóðandi hans öðru fram og beitir orð­ræðu sem ég man ekki eftir að hafi áður tíðkast í for­seta­fram­boði hér­lendis. Sem betur fer hefur Guðna tekist að forðast stór­yrði í kosninga­bar­áttunni og orð­ræða hans verið bæði mál­efna­leg og yfir­veguð. Kurteisi er Guðna í blóð borin og við­mót þeirra hjóna er ein­stak­lega vina­legt og al­þýð­legt. Guðna hefur sem for­seta tekist að sam­eina fólk en ekki sundra, en það er eigin­leiki sem sjaldan hefur verið eins mikil þörf fyrir og nú. Það er ein­mitt í mót­vindi sem mest mæðir á for­seta Ís­lands. Þar kemur Guðni sterkur inn – og það get ég full­yrt út frá eigin reynslu.

Guðni kann að hlusta og hefur reynst mér og fleirum vel þegar á móti blæs. Minnis­stæð er ferð okkar á Hvanna­dals­hnjúk fyrir þremur árum þar sem sofið var í tjaldi á miðjum Ör­æfa­jökli. Hæsti tindur Ís­lands, Hvanna­dals­hnjúkur, var síðan toppaður á mið­nætti en þangað hafði hann ekki komið áður. Þetta var krefjandi fjalla­ferð þar sem draga þurfti þungar púlkur á ferða­skíðum upp Ör­æfa­jökul.

Þótt Guðni hefði nær enga reynslu af jökla­ferðum reyndist þessi ferð honum til­tölu­lega auð­veld. Hann var í góðu líkam­legu formi en það var þó and­legur styrkur og mikil já­kvæðni sem tryggðu að hópurinn náði tak­marki sínu. Á nætur­stað gekk for­setinn í öll verk eins og aðrir leið­angurs­menn. Á leiðinni heim náðum við líka að klífa Vestari Hnapp sem er fá­farinn snar­brattur tindur. Veðrið þessa daga var ein­stakt en það var fé­lags­skapurinn sem stóð upp úr. Sér­stak­lega þótti mér gaman að sjá Guðna takast af á­ræðni og já­kvæðni á við krefjandi og framandi að­stæður. Slíka eigin­leika viljum við sjá hjá for­seta Ís­lands og ekki spillir fyrir hversu heil­steyptur Guðni er og að hann láti vel­ferð allra Ís­lendinga sig varða. Ef við viljum efla slík gildi mætum við á kjör­stað og greiðum Guðna at­kvæði okkar.