Finn­land og Sví­þjóð hafa sótt um aðild að NATO. Þó löndin tvö hafi hingað til staðið utan NATO voru þau ekki alveg hlut­laus. Bæði löndin eru aðilar að Evrópu­sam­bandinu (ESB) og Finn­land er auk þess á evru­svæðinu. Bæði löndin hafa tekið þátt í her­æfingum NATO. Finn­land og Sví­þjóð hafa því fyrir löngu skipað sér í hóp Vestur­landa. Bæði löndin notuðu tæki­færið 1995 til að ganga í ESB í kjöl­far falls Sovét­­ríkjanna 1991. Staða Rúss­lands hefur veikst í Úkraínu­stríðinu og nú grípa þau tæki­færið og sækja um í NATO og geta verið nokkuð örugg um aðild. Engar þjóðar­­at­kvæða­greiðslur um NATO aðild hafa farið fram í Finn­landi eða Sví­þjóð. Skoðana­kannanir benda til þess að mikill meiri­hluti vilji í NATO og meiri­hluti var á þjóð­þingum beggja landa til að sækja um aðild.

Sam­kvæmt 10. grein (Artic­le 10) stofn­sátt­mála NATO (e. North At­lantic Treaty) þurfa öll aðildar­ríki að sam­þykkja stækkun NATO. Ljóst er að Finn­land og Sví­þjóð upp­fylla öll skil­yrðin, eru lýð­ræðis­ríki þar sem mann­réttindi eru virt og eru hernaðar­lega vel búin. Auk þess hafa þau stuðning Banda­ríkjanna, sem mestu ráða um hvaða ríki fá aðild að NATO og þar með hvaða ríki fái svo­kallað Artic­le 5 Guaran­tee, sem felur í sér að árás á eitt NATO ríki sé árás á þau öll og að við slíkar að­stæður muni NATO snúast til varnar. Ferlið fyrir aðild Finn­lands og Sví­þjóðar að NATO mun senni­lega ekki taka meira en nokkra mánuði. Næsti leið­toga­fundur NATO verður í Madríd á Spáni 28. til 30. júní 2022.

Meðal aðildar­ríkja NATO hafa Tyrkir lýst yfir efa­semdum vegna stuðnings landanna við Kúrda sem þeir á­líta hryðju­verka­menn. Finnar og Svíar hafa verið var­færnir í sam­skiptum sínum við Tyrki og segjast munu senda sendi­nefndir til Ankara til að ræða við Tyrki. For­setar Finn­lands og Sví­þjóðar hafa talað við for­seta Tyrk­lands um málið í síma. Hæpið er að Tyrkir muni tefja málið lengi en þeir gætu viljað fá eitt­hvað fyrir sinn snúð. Tyrk­land er nú mikil­vægt, meðal annars vegna legu sinnar við Svarta­hafið, en Úkraínu­stríðið snýst að veru­legu leyti um yfir­ráð yfir því. Rússar gátu til dæmis alls ekki hugsað sér NATO flota­stöð í Sevastopol á Krím­skaganum sem hefði getað orðið að veru­leika við inn­göngu Úkraínu.

Rúss­nesk stjórn­völd taka inn­göngu Finn­lands og Sví­þjóðar illa og hafa látið í ljós að nú þurfi að styrkja varnir Rúss­lands við landa­mæri Finn­lands sem eru rúm­lega 1.300 kíló­metra löng. Við inn­göngu Finn­lands og Sví­þjóðar verður Eystra­saltið nú um­kringt NATO ríkjum nema stutt strand­lengja við St. Péturs­borg og svo Kalínín­grad. Rúss­land mun reyna að tryggja siglinga­leiðir sínar á Eystra­saltinu. Ó­víst er að til frekari að­gerða komi gagn­vart Finn­landi og Sví­þjóð svo framar­lega sem NATO hefur ekki hernaðar­upp­byggingu í þessum löndum. Vaxandi spenna gæti þó leitt til þess að Rússar auki kjarn­orku­vopna­við­búnað sinn ná­lægt landa­mærum Finn­lands og í Kalíníngrad.

Eystra­salts­ríkin munu taka aðild Finn­lands og Sví­þjóðar að NATO fagnandi og líta svo á að nú sé öryggi þeirra betur tryggt. NATO aðild landanna veikir stöðu Rússa í Evrópu og ýtir þeim enn frekar í fang Kína. Rússar munu leggja á­herslu á að beina utan­ríkis­við­skiptum sínum í enn meiri mæli til Austur-Asíu, einkum Kína. Rúss­land dælir þegar gasi í gegnum Power of Si­beria 1-leiðsluna til Kína. Power of Si­beria 2-gas­leiðslan, sem er 2.600 kíló­metra löng, er í undir­búningi og mun auka mögu­leika Rússa enn frekar á að selja gas til Kín­verja, sem verða himin­lifandi. Sam­starf Rúss­lands og Kína í öryggis­málum mun aukast. Þó er ekki víst að þetta sam­starf verði far­sælt til lengri tíma, til dæmis vegna ó­líkra hags­muna á norður­slóðum og sumir óttast að Kína muni með tímanum gera landa­­kröfur á austur­hluta Rúss­lands sem í dag er mjög strjálf­býll á meðan Kín­verja vantar land.

Það var stríðið í Úkraínu sem hafði úr­slita­á­hrif á á­kvörðun stjórn­valda í Finn­landi og Sví­þjóð að sækja nú um aðild að NATO. Úkraínu­stríðið sem Rússar hófu átti meðal annars að koma í veg fyrir stækkun NATO með aðild Úkraínu, en er nú að leiða til stækkunar NATO með aðild Finn­lands og Sví­þjóðar. Úkraínu gengur betur í stríðinu við Rúss­land en flestir áttu von á. Það breytir því þó ekki að gríðar­legt tjón hefur orðið í Úkraínu. Milljónir manna hafa flúið landið, eru á ver­gangi, eða búa á á­taka­svæðum. Borgir hafa verið eyði­lagðar og þúsundir manna hafa látið lífið. Al­þjóða­bankinn spáði því ný­lega að verg lands­fram­leiðsla í Úkraínu myndi dragast saman um 45 prósent á þessu ári, sem er al­gert hrun hjá landi sem var fá­tækt fyrir.

Banda­ríkin og banda­menn þeirra meðal Vestur­landa taka því ef­laust fagnandi að staða Rúss­lands sem stór­veldis veikist, en þetta er hættu­legur leikur. Stríðið gæti breiðst út og þó að notkun kjarn­orku­vopna sé ó­lík­leg, er hún ekki úti­lokuð, telji Rússar að þeir séu að tapa. Ný­lega lét Selenskíj, for­seti Úkraínu, hafa eftir sér að að­eins samningar geti bundið enda á stríðið. Hann veit sem er að lengra stríði fylgir meiri eyði­legging. Tíminn er ekki að vinna með Úkraínu. Og nú vaknar spurning um það hvort Úkraína muni ná betri samningum við Rúss­land að stríði loknu, en hefði mátt ná fyrir stríð? Aðild Finn­lands og Sví­þjóðar að NATO mun styrkja NATO, en hjálpar það Úkraínu? Varla, og að stríði loknu verður Úkraína hvergi ná­lægt NATO aðild og eftir eyði­legginguna enn fjarri ESB aðild.

Höfundur er prófessor við Háskólann á Akureyri og starfaði hjá Alþjóðabankanum um tólf ára skeið í Washington, Ríga og Hanoí.