Ég skrifaði grein í blaðið 3. maí með fyrirsögninni „Hvað gerir Seðlabanki á morgun?“, en daginn eftir tók Seðlabanki ákvörðun um stýrivexti fyrir næsta vaxtatímabil.

Andstætt því, sem 25 helztu sérfræðingar Evrópu í vaxta- og peningastefnumálum greindu og ályktuðu, nefnilega, að halda stýrivöxtum óbreyttum, við 0,0%, komst Seðlabankastjóri og Peningastefnunefnd að þeirri niðurstöðu, að við þessari verðbólgu- og fasteignaverðsþróun – þeirri sömu reyndar hér og í Evrópu – yrði að bregðast með þeirri hæstu stýrivaxtahækkun, sem hér hefur orðið síðan í hruninu, eða með 1% hækkun, úr 2,75% í 3,75%.

Áhrif stýrivaxtahækkunar

Flest, sem í gangi er í þjóðfélaginu, hvort sem það eru framkvæmdir og fjárfestingar, rekstur, önnur starfsemi, viðskipti eða kaup, er háð fjármagni. Vextir á fjármagnið hafa því áhrif á kostnað á öllum sviðum. Þeim mun hærri vextir, þeim mun meiri kostnaður; vextir hækka allan tilkostnað og allt verðlag.

Bitnar á húsnæðiskaupendum

Svo praktískt dæmi sé tekið, þar sem um 50.000 fjölskyldur í landinu eiga í hlut, 120.000-150.000 manns, þá hækkar greiðslubyrði fjölskyldu, sem skuldar 30 milljónir í óverðtryggðu húsnæðisláni, um 5.000 kr. á mánuði fyrir hvert 0,25 prósenta hækkunarstig, sem vextir hækka.

Stýrivextir eru auðvitað ekki markaðsvextir, heldur vextir Seðlabanka til viðskiptabanka. Oftast eru vextir viðskiptabanka til sinna viðskiptavina hærri, þar sem viðskiptabankarnir leggja á.

Ef við tökum samt bara þá vaxtahækkun, sem Seðlabanki hefur ákvarðað síðustu misseri, en hún er 3%, þá þýðir hún, að fjölskyldurnar 50.000, sem skulda 30 milljónir í húsnæðisláni, þurfa nú að greiða 60.000 kr. meira á mánuði, 720.000 kr. meira á ári, en var, áður en Seðlabanki setti stýrivaxtahækkunarferlið í gang.

Meginhlutverk seðlabanka

Hvers á allt þetta saklausa og varnarlausa fólk að gjalda, sem treysti á loforð ríkisstjórnar og Seðlabanka um lágvaxtastefnu? Hver er virðing Seðlabanka við allar þessar fjölskyldur? Eru þær einfaldlega peð á taflborði Seðlabankastjóra, sem fórna má að geðþótta og vild!? Er það ekki einmitt meginhlutverk Seðlabanka, að tryggja og verja hagsmuni og velferð almennings í landinu?

Hvað gengur Seðlabanka til?

Eins og fyrir liggur, getur Seðlabanki ekki lækkað framleiðsluverð, og sérstaklega ekki innflutningsverð, né heldur byggingarkostnað, með vaxtahækkunum, þó að þeir gefi nú í skyn, að það séu þeir einmitt að gera. Áhrifin verða þveröfug, ganga öll í hækkunarátt.

Hvað gengur Seðlabanka þá til? Hann er einfaldalega að lemja niður lífskjör og velferð, með þessum stórfelldu vaxtahækkunum, draga úr möguleikum manna til að lifa vel og njóta lífsins, kæfa niður neistann og kraftinn í þjóðfélaginu, lama neyzlu og kaupkraft með valdi, ofbeldi, til þess að berja niður eftirspurn og verðlag.

Og svo segir Seðlabankastjóri í viðtali við Vísi: „Við erum að reyna með þessu að vinna (búa) í haginn fyrir komandi kjarasamninga“. Var þetta brandari?

Var önnur leið fær?

Krónan er sveigjanlegur gjaldmiðill, þó að það sé oftast til óþurftar og vandræða. T.a.m. núna værum við með núll prósent vexti, 0,0%, ef við hefðum verið með Evru, en ekki krónu, og hefði þá ekki til þessa gönuhlaups Seðlabanka þurft að koma.

Þökk sé uppgangi ferðaþjónustu og hagstæðum viðskiptajöfnuði árin fyrir Covid, eigum við digra gjaldeyrisvarasjóði. Í krafti þeirra og þeirrar uppsveiflu í ferðaþjónustu, sem fyrirsjáanleg er, eins í krafti þess, að verðlag á útflutningsafurðum okkar hefur stórhækkað síðustu mánuði og misseri, hefði Seðlabankastjóri geta farið í verkfærakistu sína og aðlagað vexti og gengi að þessari þróun.

Bandaríkjadal hefði þá mátt stýra í 115 kr. og evru í 120-125 kr., en þessi leiðrétting hefði þýtt, að verðlag á öllum innfluttum varningi hefði haldist óbreytt í krónum, frá því sem var fyrir Covid, þrátt fyrir hækkanir í erlendri mynt.

Stýrivextir hefðu mátt fara í 0,5–1%

Varðandi fasteignamarkaðinn hefði til að mynda mátt gera þetta: 1. Bjóða sveitarfélögum rífleg lán, á 1% vöxtum, til að hraða undirbúningi lóða. 2. Bjóða byggingaraðilum og verktökum rífleg lán, á sömu kjörum, til að hraða og auka uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. 3. Hlutast til um það við viðskiptabanka og lífeyrissjóði, að eigið fé íbúðakaupenda þyrfti að vera minnst 25-30%. 4. Þetta gilti í 30 mánuði.

Með þessu hefði sennilega mátt tryggja raunsæja og farsæla kjarasamninga í haust, sem ekki eru í sjónmáli í stöðunni, nema síður sé.