Ég sem persóna er afsprengi óteljandi fullkomlega ófyrirsjáanlegra tilviljana. Eitthvað gerðist einhvern tímann sem lét annað gerast sem lét annað gerast sem lét annað gerast og svo koll af kolli í vef billjón atburða sem sköpuðu á endanum mig úr mengi hundruð milljóna möguleika í einu andartaki af skrilljón mögulegum andartökum. Ég varð til. Svo innilega hefði einhver önnur manneskja getað orðið til í stað mín, eða engin og ég hefði aldrei orðið neitt í neinum skilningi, ekki einu sinni pæling. Það voru í raun alltaf hverfandi líkur á því að ég – Guðmundur Steingrímsson – manneskjan sem ég er, með mína eiginleika, hvatir, hugsanir, útlit – yrði til.

Öll erum við þessu marki brennd. Við erum öll furðuverk. Bill Gates, Pútín, Beyoncé, Frans páfi, mamma. Allt þetta fólk gat svo innilega ekki orðið til. Hreinar tilviljanir sköpuðu það. Mér finnst hollt að minna sig á þetta. Einhvern veginn er rökréttast að afleiðing þessarar vitneskju eigi að kveikja í brjósti allra einstaklinga þakklæti, eða einhvers konar hógværð. Auðmýkt. Forvitni og undrun. Það færi öllum betur, eftir slíkt teningakast tilviljana sem tilvist allra er, að þegja bara meira. Njóta. Skoða. Ekki gera líf annarra ömurlegt. Ekki ráðast inn í Úkraínu. Ekki brugga launráð til að arðræna samfélög, eyða náttúrunni og menga umhverfið. Ekki velta því upp úr stóli opinbers embættis hvort hommar séu of margir í landinu. Ekki vera Láki jarðálfur. Ekki gelta á eftir samkynhneigðu fólki á gangi því til niðurlægingar.

Ekki eru allir á sömu blaðsíðunni hvað þetta varðar. Samtíminn einkennist af miklum átökum. Á aðra röndina eru frjálslynd öfl sem vilja styðja fólk í fjölbreytileika sínum og hanna þannig samfélög að allar manneskjur geti verið eins og þær eru. Enginn er þess umkominn að leggja dóm á lífsstíl annarra, svo lengi sem fólk ber virðingu fyrir hvert öðru og gerir ekki öðrum illt. Á hina röndina eru íhaldsöfl, sem telja rétt að halda í heiðri skilgreiningum – á gildum, kynjum, stéttum, hlutverkum – sem þau fullyrða að hafi gagnast mannkyni vel hingað til og muni gagnast vel áfram. Sumir segja að komi til stríðs milli þessara afla muni íhaldsöflin gjörsigra frjálslynda, því á meðan íhaldssama bókstafstrúarliðið hefur notað tímann til að sanka að sér byssum hafa boðberar frjálslyndisins notað hann til að rífast innbyrðis um það hvernig merkja beri klósetthurðir.

Slík hótfyndni – vissulega smá fyndin – er auðvitað á ákveðinn hátt til þess fallin að draga dár að þróun samtímans. Hún virðist sumum erfið. Sú var jú tíð að mannkynið, a.m.k. á síðari tímum á Vesturlöndum, skiptist í karla og konur, á yfirborðinu alla vega. Fleiri möguleikar voru ekki í boði. Það er óhætt að segja að á síðari árum hafi þessi grundvöllur tilverunnar, sem svo er fyrir mörgum, verið sprengdur í loft upp í nokkuð magnaðri flugeldasýningu fjölbreytileikans. Nú eru í boði á Facebook 58 kyn. Fáir geta sagt hvað stafarunan LGBPTTQQIIAA+ þýðir. Fólk er ekki bara gagnkynhneigt, samkynhneigt, tvíkynhneigt, hán eða trans. Fólk er tvígerva, dulkynja, pangerva, kynsegin, flæðigerva eða eigerva, svo fátt eitt sé nefnt. Horfin er sú veröld þar sem SÍS þýddi Samband íslenskra samvinnufélaga. Nú er sís hugtak yfir það að upplifa kyn sitt það sama og líffræðilega kynið. Að vera gagnkynhneigður karl í karllíkama, eða gagnkynhneigð kona í kvenlíkama, er bara eitt hugtak af mörgum.

Að mínum dómi er það óendanlega miklu skemmtilegra að röð hinna skrilljón tilvistarlegu tilviljana skuli skila manni í slíkan heim, þar sem litirnir eru alls konar, fremur en að þær skili manni í heim þar sem fátt leyfist og fólki er gert að bæla eðli sitt. Hugmyndin um að eitthvert kyn eða einhver tegund af fólki sé eðlilegri en annað, er tálsýn ein. Í vikunni hlustaði ég á áhugavert viðtal við Kathryn Bond Strockton, sem er enskuprófessor við Háskólann í Utah með áherslu á kynjafræði. Hún vill meina að í raun séu allir queer, eða hinsegin, einstakir eða furðulegir – eftir því hvernig orðið er þýtt – þegar kemur að kyni.

Á henni mátti skilja að hvítir íhaldssamir sískarlar séu ekki síst sérstakir. Í veröld þar sem frelsið er yndislegt hafi margir þeirra reist sér fangelsi, umkringt jarðsprengjum, þar sem fátt má gera og hvergi má stíga. Engin forvitni. Engin undrun. Engin eftirgjöf. Karlmennskan er sögð í húfi. Líta skal út eins og Tom Cruise en ekki nota krem.

Í veröld hinna mörgu kynja er þetta þá kannski furðulegasta kynið. Fellini sagði að karlmenn væru eins og hundar. Þá langi til að tala en geti bara gelt.

Ekki eru þó allir sís svoleiðis. Hér er kannski komið kyn númer 59: Voffar?