Sýning Lista­safns Ís­lands, Berangur, sem vakið hefur verð­skuldaða at­hygli, byggist á verkum frá síðustu ævi­árum Georgs Guðna. Í sýningunni felst djúp merking, mikil ein­lægni og traust sem endur­speglast þar ljós­lega. Þeir sem lesið hafa kynningar­texta sýningarinnar og fylgst með við­tölum fjöl­miðla við sýningar­stjóra Berangurs átta sig á því að Einar Gari­baldi Ei­ríks­son hefur traust tök á verk­efni sínu, enda gjör­kunnugur lífs­starfi lista­mannsins.

Aðal­steinn Ingólfs­son ritaði grein í Frétta­blaðið þann 18. mars síðast­liðinn um Berangur. Áður en hann skrifaði greinina ræddi hann við sýningar­stjórann, sem veitti honum góð­fús­lega ýmsar upp­lýsingar sem eftir var leitað. Engu að síður er ýmis­legt í greininni sem fer þvert á það sem Aðal­steinn var upp­lýstur um.

Ó­mak­leg að­för

Í grein sinni stað­hæfir list­fræðingurinn meðal annars að um 2/3 verka sýningarinnar séu ó­kláruð. Á sýningunni eru 41 olíu­verk og því má ætla af skrifum hans að hátt í 30 verk séu ó­full­gerð. Það er fjarri öllu lagi. Að­för Aðal­steins að sýningunni Berangri er ó­mak­leg. Hún vegur að heiðri látins lista­manns, nánustu að­stand­enda hans og sam­vinnu þeirra við Lista­safn Ís­lands.

Þvert á full­yrðingar Aðal­steins var enginn flýti­bragur á undir­búningi sýningarinnar. Þrátt fyrir afar ó­venju­legt ár, sem koll­varpaði á­formum flestra lista­safna heims, hélt Lista­safn Ís­lands þeirri ætlun sinni að halda sýningu á verkum Georgs Guðna árið sem hann hefði orðið sex­tugur og þegar tíu ár voru liðin frá því að hann féll skyndi­lega frá.

Ný miðlun rann­sókna

List­fræðingurinn telur fyrir­hugaða út­gáfu vera til marks um ,,hirðu­leysi um mynd­listar­lega þýðingu verka“ Georgs Guðna um leið og hann gerir lítið úr þeirri nýjung sem felst í því að fá sam­tíma­lista­menn til að rita texta og er við­bót við það sem áður hefur verið gefið út um verk hans. Ekki má heldur líta fram hjá því að Lista­safn Ís­lands stóð fyrir vel heppnuðu mál­þingi um verk lista­mannsins í sýningar­salnum þann 13. mars síðast­liðinn þar sem mynd­listar­leg þýðing verka hans var tíunduð í fróð­legum erindum fræði­manna að við­stöddum rétt um 50 manns (vegna fjölda­tak­markana). Erindin voru inn­legg í fag­lega um­ræðu um þátt Georgs Guðna í ís­lenskri lista­sögu og þau opna betur mynd­heim hans og túlkanir nú þegar horft er til baka.

Mál­þinginu var streymt á laugar­dags­morgni á Face­book-síðu safnsins og það mun verða klippt og sett á Youtu­be rás þess innan skamms. Erindin verða einnig gefin út á heima­síðu safnsins í raf­rænu ,,sér­prenti”. Á þann hátt miðlar Lista­safn Ís­lands með myndar­brag mynd­listar­legri þýðingu verka Georgs Guðna á nú­tíma­legan hátt og með mun al­mennari hætti en bóka­út­gáfa felur í sér. Þannig eru söfn farin að miðla rann­sóknum sínum í auknum mæli og ætti að vera fræði­mönnum fagnaðar­efni. Í safninu er unnið að því hörðum höndum að skapa ríkara að­gengi al­mennings að þeim menningar­arfi sem safnið varð­veitir með því að nýta sam­skipta­miðla og aðrar staf­rænar leiðir eins og kostur er.