Við Ís­lendingar erum sjálf­stæð þjóð. Við erum þjóð meðal þjóða. Við ráðum okkar málum sjálf. Það kemur ekki í veg fyrir marg­vís­legt sam­starf okkar við aðrar þjóðir.

Í Norður­landa­ráði fer fram mikil­vægt sam­starf frænd­þjóða. Menningin er horn­steinn þess sam­starfs. Nor­ræn menning og menningar­arfur, sem við Ís­lendingar getum státað okkur af að hafa varð­veitt og fært frá gengnum kyn­slóðum til sam­tímans og fram­tíðarinnar, er nokkuð sem við eigum sam­eigin­legt með frændum okkar.

Orðið frændi er merki­legt orð. Á okkar tungu merkir það fyrst og fremst ættar­tengsl en í mörgum tungu­málum, meðal annars ensku og þýsku, vísar þetta sama orð til vin­áttu. Frændi er vinur og vinur er frændi.

Innan At­lants­hafs­banda­lagsins erum við í varnar­sam­starfi með frænd- og vina­þjóðum. Á dögunum fjölgaði um tvær frænd­þjóðir okkar í því merka banda­lagi. Allar Norður­landa­þjóðirnar eru nú þátt­tak­endur í NATO.

Líkast til er það ein­hver land­læg þrjóska sem veldur því að ís­lenskir ráða­menn berja hausnum við steininn og vilja standa utan stærsta og á­hrifa­mesta lýð­ræðis­banda­lags í heimi þar sem fyrir eru vina- og frænd­þjóðir okkar. Í gegnum EES höfum við skuld­bundið okkur til að lög­leiða mest­allt reglu­verk ESB, en þar sem við erum ekki aðilar að ESB höfum við engin á­hrif á stefnu­mótun sam­bandsins.

Þetta er undar­legt hags­muna­mat ráða­manna.

Með fullri aðild að ESB fengjum við Ís­lendingar ekki einungis sæti við borðið þar sem stefna sam­bandsins er mörkuð og á­kvarðanir teknar. Við fengjum einnig evruna, gjald­miðil ESB.

Ís­land er gjöfult og gott land. Akkilesar­hæll Ís­lands er krónan, minnsti gjald­miðill í heimi. Ís­lenska krónan skaðar sam­keppnis­hæfni Ís­lands gagn­vart um­heiminum.

Á­stæðan er ein­föld. Ís­lensk inn­flutnings­fyrir­tæki þurfa að kaupa gjald­eyri af bönkunum til að kaupa inn vörur. Fyrir þetta borga þau bönkunum þóknun. Ís­lenskir neyt­endur borga þann brúsa.

Ís­lensk út­flutnings­fyrir­tæki þurfa að selja bönkunum gjald­eyri fyrir krónur til að geta borgað laun og að­föng hér á landi. Fyrir þetta borga þau bönkunum þóknun. Þetta dregur úr sam­keppnis­hæfni ís­lenskra fyrir­tækja á er­lendum mörkuðum.

Ís­lenskir ferða­menn verða að kaupa gjald­eyri af bönkunum þegar þeir fara í frí til út­landa og greiða bönkunum þóknun. Fyrir vikið verður fríið dýrara en ella.

Ís­lenska krónan er fíllinn í stofunni.