Við Íslendingar erum sjálfstæð þjóð. Við erum þjóð meðal þjóða. Við ráðum okkar málum sjálf. Það kemur ekki í veg fyrir margvíslegt samstarf okkar við aðrar þjóðir.
Í Norðurlandaráði fer fram mikilvægt samstarf frændþjóða. Menningin er hornsteinn þess samstarfs. Norræn menning og menningararfur, sem við Íslendingar getum státað okkur af að hafa varðveitt og fært frá gengnum kynslóðum til samtímans og framtíðarinnar, er nokkuð sem við eigum sameiginlegt með frændum okkar.
Orðið frændi er merkilegt orð. Á okkar tungu merkir það fyrst og fremst ættartengsl en í mörgum tungumálum, meðal annars ensku og þýsku, vísar þetta sama orð til vináttu. Frændi er vinur og vinur er frændi.
Innan Atlantshafsbandalagsins erum við í varnarsamstarfi með frænd- og vinaþjóðum. Á dögunum fjölgaði um tvær frændþjóðir okkar í því merka bandalagi. Allar Norðurlandaþjóðirnar eru nú þátttakendur í NATO.
Líkast til er það einhver landlæg þrjóska sem veldur því að íslenskir ráðamenn berja hausnum við steininn og vilja standa utan stærsta og áhrifamesta lýðræðisbandalags í heimi þar sem fyrir eru vina- og frændþjóðir okkar. Í gegnum EES höfum við skuldbundið okkur til að lögleiða mestallt regluverk ESB, en þar sem við erum ekki aðilar að ESB höfum við engin áhrif á stefnumótun sambandsins.
Þetta er undarlegt hagsmunamat ráðamanna.
Með fullri aðild að ESB fengjum við Íslendingar ekki einungis sæti við borðið þar sem stefna sambandsins er mörkuð og ákvarðanir teknar. Við fengjum einnig evruna, gjaldmiðil ESB.
Ísland er gjöfult og gott land. Akkilesarhæll Íslands er krónan, minnsti gjaldmiðill í heimi. Íslenska krónan skaðar samkeppnishæfni Íslands gagnvart umheiminum.
Ástæðan er einföld. Íslensk innflutningsfyrirtæki þurfa að kaupa gjaldeyri af bönkunum til að kaupa inn vörur. Fyrir þetta borga þau bönkunum þóknun. Íslenskir neytendur borga þann brúsa.
Íslensk útflutningsfyrirtæki þurfa að selja bönkunum gjaldeyri fyrir krónur til að geta borgað laun og aðföng hér á landi. Fyrir þetta borga þau bönkunum þóknun. Þetta dregur úr samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja á erlendum mörkuðum.
Íslenskir ferðamenn verða að kaupa gjaldeyri af bönkunum þegar þeir fara í frí til útlanda og greiða bönkunum þóknun. Fyrir vikið verður fríið dýrara en ella.
Íslenska krónan er fíllinn í stofunni.