Samtök iðnaðarins (SI) glöddu landsmenn fyrir stuttu með sérriti Mbl. sem dreift var í hús a.m.k. á höfuðborgarsvæðinu. Ritið, ásamt öðrum útgáfum samtakanna, er hugsað sem hvatning til þjóðarinnar til að efla nýsköpun og láta einskis ófreistað að fá erlend fyrirtæki til landsins. Þar er mikið talað um nýsköpun, starfsumhverfi og eftirsótt hálaunastörf í nýjum atvinnugreinum, allt í nafni aukinnar verðmætasköpunar sem sókn til betri lífskjara. Talað er um að markaðssetja Ísland sem nýsköpunarland og beina því sérstaklega að erlendum fjárfestum, frumkvöðlum og erlendum sérfræðingum. Einnig er minnt á að stöðugt, hagkvæmt og skilvirkt starfsumhverfi sé ein lykilforsenda samkeppnishæfs atvinnulífs og góðra lífskjara. Hverra hagsmuna eru SI að gæta? Allt satt og rétt en hvernig er hægt að gefa út bækling um allt það brýna sem þörf er á til að standa fyrir framförum í iðnaði án þess að minnast á þær hindranir sem fólgnar eru í því að búa við íslenska krónu? Hvaða hagsmuni eru SI eiginlega að verja með því að þykjast ekki sjá fílinn sem fyllir út í skrifstofur þeirra? SI eru einu samtök sambærilegra systursamtaka í nágrannalöndunum sem hafa ekki á stefnuskrá sinni aðild að ESB.

Í ritinu er spurt hvort Ísland ætti að fara sömu leið og Malta og laða til landsins fjölbreyttan hátækniiðnað. Greint er frá ákvörðunum stjórnvalda á Möltu sem réðist í „metnaðarfulla stefnumótun fyrir þetta litla land“ í því skyni til að fá þangað hátækniiðnað með mikla framlegð og sem gerir kröfu um hátt menntunarstig. Forsendan fyrir þessu átaki hjá Möltu var innganga landsins í ESB og upptaka evru en samt dugir þessi frásögn ekki til að SI dragi af því viðeigandi ályktanir fyrir Ísland. Því miður er það svo að ákall SI um samkeppnishæfni er í besta lagi hlægilegt á meðan iðnrekendur þora ekki að taka afstöðu til ESB og evrunnar. Samtök Iðnaðarins verða að taka sig á og sýna meiri metnað og sjálfstæði ef þau ætlast til að vera tekin alvarlega.