Eitt af því mikilvægasta sem ég hef lært á lífsleiðinni er það hversu hamingjan er ódýr og aðgangurinn að henni sára einfaldur. Ég hef nefnilega oftast rekist á hana þegar ég er á gangi um fjöll og dali, í lautarferð með dætrum mínum, á skokki, í sjósundi á Íslandi eða jafnvel bara á snakki með góðum vini. Þó vissulega séu stórtilefni og sigurstundir skemmtilegar er hamingjan vís með að bæra síður á sér þar en við fjörulall. Það eina sem hún krefst er að ég sé nógu hégómalaus til að láta hrífast af hverju sem er, nánast eins og barn.

Það er einmitt þess vegna sem ég á svo erfitt með að skilja þá lensku sumra, sem ég hef orðið var við úr fjarska, að það sé einhver aumkunarverð sveitamennska að gera sér leið að Fagradalsfjalli til að hrífast af gosinu. Rétt eins og fólk eigi að vera orðið svo veraldarvant og sjóað af undrum lífsins að það geri sér engar grillur yfir einu gosi. Ég hef hins vegar minni áhyggjur af þeim sem spretta af stað til að líta fegurðina, og grilla kannski eins og eina pylsu á hrauninu, en þeim sem hafa heilsu, tíma og tækifæri til að verða vitni að stórvirkjum náttúrunnar en eru bara alltof kúl til að láta það eftir sér. Því hvað gerir maður sér til skemmtunar þegar forvitnin er farin? Hvað kom fyrir fólk sem hlífir skynkvíum sínum við náttúrunni? Líkt og í sögunni um Nýju fötin keisarans hef ég áhyggjur af hégómanum en ekki barnaskapnum.