Eftir því sem fíflunum fjölgar í kringum okkur aukast líkurnar á að við sjálf séum fíflið.

Amma á Snæbýli var vitur kona. Þegar einhver í fjölskyldunni var búinn að klúðra hressilega, bar sig aumlega og reyndi að kenna öðrum um sagði hún einfaldlega að hvert og eitt okkar yrði að liggja eins og við hefðum um okkur búið.

Í því fólst engin fordæming á persónum og leikendum – aðeins ábending um að ábyrgðin lægi hjá viðkomandi. Flest vandamál eru enda heimatilbúin, þau er best að leysa heima – og fíflið er oftast í speglinum.

Vandamálin stækka eftir því sem völdin eru meiri – og hafa þá áhrif á stærri hóp fólks.

Stigvaxandi erfiðleikar við að viðurkenna mistök eru oftar en ekki í línulegu samhengi við völd. Þá upphefst gjarnan hringrás þar sem ný vandamál bíta í skottið á gömlum, endurtekið.

Til að kynnast innri manni einhvers er skilvirkast að færa viðkomandi vald.

Vald til að hlutast til um fjármagn, stefnu, velferð og stöðu annarra í samfélaginu. Það er nefnilega vandmeðfarið, valdið, og mörg falla í þá gildru að nota það til að hygla og hefna – og brenna um leið allar brýr að baki sér.

Erfiðasta verkefnið er stundum það einfaldasta; að vera almennileg manneskja, gera sitt besta, af heilindum, hugsa um hag heildarinnar.

Byggja brýr í stað þess að brenna.

Er ekki bara best að líta í spegil?