Manneskja sem á að heita fullorðin en heldur í þá barnslegu trú að þau sem ráða séu betri, heiðarlegri og sanngjarnari en þau eru, er eiginlega ponsulítið vitlaus. Ég hef verið ferlega vitlaus.

Þau sem ráða hjá borginni eru þó ennþá vitlausari því þau trúa því að það sé endalaust hægt að komast upp með að ljúga, fela og laumupúkast án þess að nokkur fatti það.

Nú er ég að vitkast örlítið og eins og þeir vita sem það hafa prófað, þá er það er ekki sársaukalaust. Þegar maður kemst að því að meirihlutinn í borginni er vísvitandi að mismuna fötluðu fólki og halda upplýsingum leyndum svo hægt sé að breiða yfir ósómann, þá verður maður reiður og sorgmæddur.

Eins og barn sem spyr í síbylju „af hverju?“ hef ég barið hausnum við steininn og haldið að með því fengi ég einhverjar skýringar á því hvers vegna fatlað fólk fengi ekki upplýsingar um réttindi sín og af hverju væri ekki hægt að bæta úr því.

Foreldrar fatlaðra barna fá, oftar en ekki, mikilvægar upplýsingar hjá öðrum foreldrum um réttindi barna sinna. Fáránlegt! Það er undir hælinn lagt hve þjónustufulltrúar á hverfamiðstöðvum geta lagt mikið af mörkum í að veita upplýsingar en þar er engin handbók til að fletta uppí og fólk verður að treysta á eigin minni og hyggjuvit við vinnu sína. Fúsk!

Tillögu FF um að bæta upplýsingagjöf með vefsíðu og/eða bæklingi var vísað frá hjá borginni. Af hverju?

Svarið er nöturlegt. Í fyrsta lagi kemur það sér fjárhagslega betur fyrir borgina að halda fötluðu fólki óupplýstu um rétt sinn.

Í öðru lagi myndi frjálst aðgengi að upplýsingum opinbera mismunun sem borgin stundar á fötluðu fólki.

Það er nefnilega þannig að þegar manneskja með fötlun kemst loks í búsetuúrræði hjá borginni, fer hún allt í einu að njóta fríðinda sem hún naut ekki meðan hún var í umsjá örmagna foreldra sem unnu launalaust við umönnun þeirra.

Það er nokkuð síðan mig fór að gruna að það væri eitthvað gruggugt hjá borginni í þessum efnum og að fatlað fólk sæti ekki allt við sama borð þegar úthlutað væri réttindum, niðurgreiðslum og fríðindum. Ég hafði þó ekkert fast í hendi fyrr en nú.

Það þarf oft ekki mikið til svo að það sjáist í svindlið. Í þessu tilfelli var það styrkur sem veittur var fötluðu fólki í Covid-faraldrinum, en aðeins þeim sem voru fluttir að heiman.

Kannski réttlætti borgin þessa mismunun með ranghugmyndum um að fatlað fólk sem byggi í foreldrahúsum hefði það svo svakalega gott. Það ætti moldríka foreldra, haug af systkinum og ættingjum sem sæi þeim fyrir stuðningi og félagsskap. Því hefði það ekkert að gera með Covid-styrk. Ég veit auðvitað ekkert hvað fólk var að hugsa þegar það tók þessa ákvörðun en hún hefur átt að fara leynt enda öllum væntanlega ljóst að þarna var verið að mismuna fötluðu fólki eftir búsetu.

Þar sem ég hef vitkast þessi ósköp undanfarið, geri ég mér ekki vonir um að að meirihlutinn í borginni taki þetta til sín né gangist við brotum sínum eða reyni að bæta fyrir þau. Mig er farið að gruna að hann sé sálarlaus með öllu. Hef þó ekkert fast í hendi með það... ennþá.