Krísustjórnun er hægt að flokka niður í viðbragð, næst viðgerð og síðast viðsnúning. Við erum í viðbragði en viðgerðin þarf að hefjast strax og ekki dugar að bíða og vona að mótefni verði til í bráð og að allt fari í svipað horf og áður. Við þurfum „plan B“. Plan sem er heillaskref sama hvaða sviðsmynd verður. Plan sem gert er með hamingju og hagsæld Íslendinga í forgrunni. Líf án veiru. Plan sem skilar stöðugum gjaldeyristekjum og landkynningu hjá þeim ferðamönnum sem við veljum og viljum fá.

Veljum til okkar erlenda gesti sem deila menningu, áhugamálum og mynda tengsl við náttúru og fólk. Skilgreinum markhópa, búum til mismunandi búsetupakka og bjóðum til Íslands í tímabundna búsetu „Íslandsvinum“ í náttúru-, menningar- og heilsu-skjól. Við erum í lykilstöðu til að skerpa á ímynd okkar sem áfangastaðar og velja um leið til framtíðar hvaða gesti við viljum fá heim til okkar.

Ein leið gæti verið að semja við alþjóðleg stórfyrirtæki og bjóða starfsmönnum þeirra að flytja tímabundið til Íslands með fjölskyldur sínar og vinna „að heiman“. Stór og afmörkuð mengi af fjölskyldum yrðu flutt til landsins og öll færu í gegnum veiruskimun og / eða sóttkví. Val gæti verið um 3, 6, 9 eða 12 mánaða veru með fjölskyldunni. Hægt væri að bjóða búsetu í mismunandi landshlutum til að auðga upplifun gesta okkar. Frelsi, víðátta, hreinlæti, ægifögur náttúra, frambærilegt heilbrigðiskerfi og menntastofnanir, sundlaugar og seiðandi norðurljós eru okkar forréttindi sem aðrir hafa ekki svo eitthvað sé nefnt.

Þessir nýju vinir okkar myndu skapa gríðarlegan efnahagslegan, menningar- og samfélagslegan ávinning fyrir land og þjóð. Verslun og þjónusta mun blómstra sem aldrei fyrr. Förum í viðgerð og látum viðsnúninginn verða að á Íslandi búi næstu 24 mánuðina að meðaltali 1 milljón hamingjusamra, veiru-frírra, náttúru- og frelsisunnandi Íslandsvina.