Það er hagur okkar allra að búa þannig um hnútana að ferðaþjónusta skapi heils árs atvinnutækifæri á landsbyggðinni. Sjávarútvegur og landbúnaður hefur lengi verið forsenda byggða víða um land en með uppbyggingu nýsköpunar og ferðaþjónustu er hægt að tryggja aukin lífsgæði á landsbyggðinni. Blómlegt atvinnulíf skapar jafnframt forsendu fyrir öflugri heilbrigðisþjónustu og annarri almennri þjónustu. Ferðaþjónusta líkt og nafnið bendir til er þjónusta. Aðdráttarafl landsbyggðarinnar fyrir ferðamenn er sannarlega náttúrufegurðin en það þarf einnig að tryggja aðgengi og góða þjónustu. Ferðamenn sækja í fjölbreytta þjónustu sem hefur jákvæð áhrif á nýsköpun og framþróun á landsbyggðinni. Lykillinn að því er að efla innviði sem felst fyrst og fremst í betri samgöngum og aukinni þjónustu við náttúruperlur á hverju svæði fyrir sig. Slík uppbygging getur skipt sköpum þegar kemur að fjárfestingu og til að skapa mikilvæg störf og skemmtilegra samfélag.

Í Norðvesturkjördæmi er ógrynni af náttúruperlum en mikilvægt er að efla aðgengi að þeim til að skapa tækifæri fyrir fjölbreytta verslun og þjónustu sem skapar frekari fjölbreytni í störfum á svæðinu. Uppbygging ferðaþjónustu skapar einnig aukin tækifæri fyrir íbúa, ekki bara fjölbreyttari störf heldur einnig þjónustu og afþreyingu. Það er mikið hagsmunamál fyrir Ísland að efla vöxt heilsársferðaþjónustu í Norðvesturkjördæmi en það er mikilvægt að dreifa álagi vegna umferðar ferðamanna um land allt. Það er mikilvægt að standa vörð um náttúruna og að auðlindir hennar séu nýttar með sjálfbærum hætti. Við þurfum að horfa til sjálfbærni í uppbyggingu ferðaþjónustunnar í Norðvesturkjördæmi. Samhliða getum við skapað tækifæri fyrir nýsköpun í landbúnaði þar sem við leggjum áherslu á að auka fjölbreytileika og efla afurðaverðið með sjálfbærni að leiðarljósi. Við þurfum að skapa frelsi fyrir bændur til að byggja upp sína starfsemi til að ná fram hagkvæmni. Ferðaþjónusta og landbúnaður geta stutt við uppbyggingu á umhverfisvænni matvælaframleiðslu. Þar sem megin áherslan er á ábyrga efnahagslega uppbyggingu þar sem við hlúum að mannauðinum, dýravelferð, umhverfinu og samfélaginu. Það er jafnframt mikilvægt að við tölum vel um ferðaþjónustu og fólk sem hefur fjárfest í þeirri uppbyggingu. Ferðaþjónusta, ásamt sjávarútvegi, eru grunnstoðir atvinnulífs fyrir vestan og koma til með að efla efnahagslegt sjálfbærni svæðisins til lengri tíma litið.