Auðveldasta leiðin til valda er í gegnum óánægju fólks. Það er gömul saga og ný. Og á síðari tímum er hún þeim mun kunnuglegri eftir því sem yfirlýsingaglöðum þjóðernisöflum vex fiskur um hrygg í rótgrónum lýðræðisríkjum.

Nýjasta aðvörunin í þessum efnum er eftirtekja öfgahægrikonunnar Marine Le Pen í frönsku forsetakosningunum um síðustu helgi. Hún er fasisti. Engu að síður hreppti hún ríflega fjörutíu prósenta stuðning þeirra Frakka sem mættu á kjörstað í seinni hluta kjörsins. Það er meiri stuðningur við öfgahægrið en nokkurn gat órað fyrir frá því nasisminn var kveðinn niður í Þýskalandi um miðja síðustu öld.

Sá nasismi ól á einangraðri upphefð og ekki einasta á útilokun aðkomufólks, heldur slátrun þess á færibandi. Þeim nasisma má aldrei gleyma. Hvorki nú né nokkru sinni.

En þar er vandinn fundinn. Öfgahægrið hefur fundið sér næringu á ný. Hún er sótt í æ stærri hópa illa upplýstrar alþýðu sem les hvorki fréttir né fylgist með rökstuddri umræðu um breytta samfélagsgerð, en óttast það eitt í óskólagenginni aðþrengd sinni að útlendingar ræni hana störfum sínum.

Þessi ágæti hópur fólks – og hann fer vaxandi – er hvað ginnkeyptastur fyrir innihaldslausum gylliboðum á borð við þau sem Marine Le Pen gaspraði út úr sér á kosningafundunum í aðdraganda frönsku forsetakosninganna. Hún ól á óánægjunni, kvað franska menningu vera á undanhaldi, en alþjóðahyggjan væri að kæfa það sem þarfast væri í landinu.

Svona málflutningur hrífur í samfélagi sem finnur til veikleika síns og vanmáttar. Svona málflutningur hentar þeim sem hræðist það umfram allt hvað tækifærin eru fá í lífinu. Hann nærist á óttanum. Hann sækir burði sína til fáfræði og fordóma.

Og það eru ekki bara Frakkar sem finna til þessa tevatns. Bretar fundu til þess í álíka mæli fyrir nokkrum árum þegar stór hluti þjóðarinnar var læstur inni í lyginni. Merkingarlaust gaspur Evrópusambandsandstæðinga um frelsun Breta undan Brussel-valdinu var ekkert annað en uppsafnaður heilagrautur. Þegar upp var staðið stóð ekki steinn yfir steini í áróðrinum. Hann var byggður á hræðslu og óhróðri.

Lýðræðinu í Evrópu stafar mesta hættan af þröngsýnu gaspri. Ógnin sem það stendur frammi fyrir stafar af holum hljómi hávaðaseggjanna sem segja að svart sé hvítt og hvítt sé svart.

Það er aðalatriði að kalla fasisma áfram fasisma. Og kalla hann ekkert annað.