Í upphafi heimsfaraldurs virtist skynsemi og meðalhóf ætla að ráða för hér á landi. Síðan þá hefur sú fornkveðna regla hins vegar orðið æ meira ríkjandi, að erfiðara virðist fyrir stjórnlynd stjórnvöld – ekki bara á Íslandi heldur í flestum öðrum ríkjum heims – að fara til baka þegar höft hafa einu sinni verið sett á. Framan af, þegar stjórnvöld og sóttvarnayfirvöld lögðu á það áherslu að frelsisskerðandi takmarkanir ættu ekki að vera meiri en ástæða væri til hverju sinni, var ekki talin ástæða til að fylgja ráðleggingum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um grímunotkun í fjölmenni og fullyrt að þær virkuðu ekki. Síðar breyttist sú afstaða, meðal annars að sögn vegna vísbendinga um að helsta smitleið veirunnar væri loftsmit fremur en snerting.

Þegar leið á faraldurinn fóru stjórnvöld því að fikra sig að frekari grímunotkun. Fyrst þar sem ekki væri hægt að halda fjarlægð, en þegar smit voru í hámarki í svonefndri þriðju bylgju síðastliðið haust – sem var auðvitað í raun önnur bylgjan – var sett á almenn og íþyngjandi regla um grímunotkun sem enn í dag hefur haldist óbreytt. Sú ákvörðun að grípa til víðtækrar grímuskyldu kom líklega ekki síst til vegna þrýstings og ótta, fremur en endilega af vísindalegum ástæðum. Eflaust trúa því fáir í dag að notkun andlitsgríma, óháð því hvort hægt sé að tryggja tveggja metra fjarlægð milli fólks, breyti nokkru um útbreiðslu faraldursins hér á landi. Í stað þess að vera þýðingarmikil sóttvarnaráðstöfun er hún frekar orðin að einhvers konar táknmynd þess að fólk skuli á þessum leiðinlegu tímum hlýða gagnrýnislaust eins og hundar – og grímunotkun sé því áminning um hvernig við eigum að haga okkur við hin ýmsu tækifæri. Það er staða sem má ekki festast í sessi.

Samt ráfar fólk enn um ganga stórverslana með grímu, langt frá næsta manni, af því að reglurnar segja það, en ekki af því að það þjóni neinum raunverulegum tilgangi.

Í lok síðasta mánaðar kynntu stjórnvöld afléttingaráætlun, vörðurnar fjórar, sem tengja afléttingu takmarkana innanlands við markmið um bólusetningu. Það var stórt skref og sendir þau mikilvægu skilaboð að eðlilegt líf sé handan við hornið. Þannig er meðal annars áætlað að þegar helmingur þjóðarinnar hefur fengið fyrri sprautuna, í lok maí, megi allt að þúsund manns koma saman og nálægðarregla verði færð niður í einn metra. Í seinni hluta júní, þegar 75 prósent hafa fengið bólusetningu, standi síðan til að afnema allar takmarkanir. Það sem sætir hins vegar furðu er að sóttvarnalæknir, sem heilt yfir hefur staðið vel í erfiðu hlutverki, segir að engar áætlanir séu á sama tíma til staðar um afléttingu grímuskyldunnar.

Nú er faraldurinn ekki aðeins í rénun heldur er búið að bólusetja bókstaflega alla þá sem eru í áhættuhópi, og mun fleiri til. Samt ráfar fólk enn um ganga stórverslana með grímu, langt frá næsta manni, af því að reglurnar segja það, en ekki af því að það þjóni neinum raunverulegum tilgangi. Það er eins og gleymst hafi að fella niður þessi höft, því aðstæður eru allt, allt aðrar en þegar þau voru sett á. Nú skín sólin, landið er tekið að rísa og stjórnvöld hafa lofað verulegum tilslökunum innanlands. Væri ekki eðlilegt, og ekki síst táknrænt, að fella niður grímuskyldu í næstu afléttingum, sem skammt eru undan, og sýna það í orði og á borði að samstaða þjóðarinnar hefur skilað árangri og að nú sé það versta yfirstaðið – og vel það.