Þetta hófst allt með frönsku byltingunni. Þeir samræmdu mál og vog. Hundrað árum síðar byrjuðu Evrópubúar að níðast á Íslendingum og hafa hert sóknina síðan. Fyrsta ásælnin var þegar Íslendingum var bannað að mæla lengdir í föðmum en urðu að gera það í metrum, síðan mátti skippundið víkja fyrir kílóinu. Allt saman frekleg íhlutun í íslensk innanríkismál, samsæri gegn þjóðlegum gildum og ófyrirleitin ásælni Evrópu gagnvart hinum óspjölluðu Íslendingum.

Að öllu gamni slepptu þá er það einmitt þetta sem Evrópusamstarfið gengur út á, samræma sem flesta hluti svo auðvelda megi samskipti milli landa. Það er auðvelt að mála skrattann á vegginn fyrir þessa viðleitni ESB en eftir því sem heimurinn verður flóknari þarf að samræma fleiri atriði svo þeir sem vilja eiga viðskipti í Húnavatnssýslu og Andalúsíu viti að á báðum stöðum gilda sömu reglur um hvaðeina sem átt er viðskipti með, hvort sem það eru agúrkur eða rafmagn.

„Bara ef það hentar mér“

Í félagsskap sem maður ætlast til mikils af, hvort sem það er íþróttafélag eða þjóðasamband, er ömurlegt að þar skuli vera félagsmenn sem fallast á hluti í dag, mæta svo í næsta mánuði og segjast alls ekki fallast á hlutina eins og þeir höfðu lofað mánuði áður! Eiga orð ekki standa? Vill ESB halda úti EES-samstarfinu með svona félagsmenn innanborðs?

Íslensk stjórnvöld settu hrátt kjöt ekki fyrir sig árið 2006 eða orkupakka árið 2014 þegar „pakkarnir“ urðu til. Þeir sem sátu á valdastólunum þá koma núna og segja „allt í plati“. Er stefna þeirra að Ísland gangi úr EES?

Þar sem Íslendingar hafa aðeins aukaaðild að ESB var bent á það við inngönguna í EES að það væri veikleiki að koma ekki strax að mótun og afgreiðslu mála sem þessara með afgerandi hætti. Sennilega sýnir gangur þessara mála nú betur en nokkuð annað fram á nauðsyn fullrar aðildar Íslands að ESB til að vera fullgildir aðilar á þeim vettvangi þar sem ákvarðanir sem þessar eru teknar.