Heilbrigði hefur verið skilgreint sem andleg, líkamleg og félagsleg vellíðan. Almennt erum við vel meðvituð um líkamlega heilsu okkar og mikil vakning hefur orðið á síðustu árum um andlega heilsu. En hvað með félagslega þátt heilsunnar? Bæði innlendar og erlendar rannsóknir sýna að sá þáttur er mjög mikilvægur heilsunni. Í raun er enginn þáttur sem spáir betur fyrir um hamingju og vellíðan en góð félagslegstengsl. En af hverju eru félagstengsl svona mikilvæg? Og hvernig stendur á því að skortur á félagslegstengslum veldur vanlíðan og jafnvel líkamlegum heilsubresti? Frá árdögum mannkyns hefur afkoma okkar verið háð öðrum, þau sem tilheyrðu hópi voru líklegri til að lifa af og það gat verið lífshættulegt að einangrast því þar með minnkaði aðgengi að mat, skjóli og vernd innan hópsins. Sömuleiðis skiptir staða innan hóps máli, þau sem voru ofar í félagsstiganum gátu verið örugg um stöðu sína meðan þau sem neðar voru áttu á hættu að einangrast eða verða jafnvel fyrir útskúfun. Það er því ekki að undra að þegar okkur skortir þá tilfinningu að tilheyra hópi getur það valdið mikilli vanlíðan og jafnvel heilsubresti.

Hvað er einmanaleiki?

Einmanaleiki er sú tilfinning sem við finnum fyrir þegar við upplifum skort á félagslegstengslum en það er mikilvægt að greina á milli þess að vera einn og að vera einmana. Sumir una sælir í eigin félagsskap án þess að finna til einmanaleika en fólk getur líka verið einmana þrátt fyrir að vera í reglulegu samneyti við aðra ef það saknar nánari og dýpri tengsla við aðra manneskju. Það sem skiptir mestu máli er hvort persónubundinni þörf fyrir félagsleg samskipti og tengsl sé fullnægt. Það er eðlilegt að finna fyrir einmanaleika öðru hverju, en langvarandi einmanaleiki og skortur á félagstengslum getur haft skaðleg áhrif.

Af hverju verður fólk einmana?

Það getur verið mismunandi hvað veldur einmanaleika en oft eru það aðstæður eða breytingar sem leiða til þess að félagstengsl rofna. Þetta geta verið breytingar í tengslum við skóla, vinnu, búsetu og sambönd, t.d. þegar vina- eða ástarsambönd taka enda, við makamissi, þegar börn fara að heiman o.s.frv. Þegar félagstengsl rofna er mikilvægt að leita leiða til að byggja upp ný tengsl. Ákveðnir hópar eru í meiri hættu hvað varðar einmanaleika, en þeir eru fjölbreyttir og ólíkir innbyrðis. Þetta geta verið einstæðir foreldrar sem hafa minni tíma eða fjárráð til að taka þátt í félagslífi, eldra fólk sem hefur misst lykilaðila úr sínu félagsneti, börn sem verða fyrir höfnun jafnaldra sinna, fólk af erlendum uppruna sem ekki hefur myndað tengsl í samfélaginu og fólk sem býr við langvinn veikindi, eða fötlun, fátækt, fordóma og jaðarsetningu. Viðbrögð til að sporna gegn einmanaleika þurfa því að vera fjölbreytt og miðast að aðstæðum ólíkra hópa. Í því skyni er mikilvægt að úrræði og aðgerðir séu mótaðar í náinni samvinnu við þá hópa sem um ræðir til að tryggja að þörfum þeirra sé mætt og árangur náist við að rjúfa einangrun og einmanaleika.

Einmanaleiki og heilsa

Bæði magn og gæði félagstengsla, hafa áhrif á líkamlega og andlega heilsu og jafnvel lífslíkur. Það er ekki bara sárt að vera einmana heldur vinnur það gegn góðri heilsu og lífsgæðum. Þess vegna er mikilvægt að vinna ötullega að því að efla tengsl milli fólks í samfélaginu, vinna gegn félagslegri einangrun og skapa aðstæður sem ýta undir félagslegt samneyti. Það skiptir einnig sköpum að horft sé til mögulegra áhrifa á félagstengsl og félagslega heilsu þegar stefnur og aðgerðir eru mótaðar á ýmsum sviðum, svo sem við borgar- og bæjaskipulag, skólahald, frístundastarf, samgöngur og svo mætti lengi telja. Á tímum COVID-19 er einnig brýnt að horft sé til félagslegra þátta við skipulag aðgerða og hugað að því hvernig vinna má gegn því að félagslegt heilbrigði barna og fullorðinna bíði hnekki þegar takmarka þarf samneyti að einhverju leyti. Hér þurfa allir að taka höndum saman; skólar, frístundastarf, félagsþjónusta, vinnustaðir og heilbrigðisstofnanir, þar sem hver og einn hugar að því hvert framlag þeirra getur verið til að vernda félagslegstengsl sinna skjólstæðinga og starfsmanna á tímum COVID-19.

Seigla í mótlæti

Oft tekst okkur að takast á við mótlæti, áföll, ógnir eða streituvaldandi aðstæður með farsælum hætti og aðlagast vel. Seigla er ekki einhver eiginleiki sem fólk annað hvort hefur eða ekki heldur samanstendur hún af verndandi þáttum sem ná yfir hugsanir, aðstæður og athafnir sem hægt er að tileinka sér. Þessir verndandi þættir geta því verið hjá okkur sjálfum sem einstaklingum, í nærumhverfi okkar eða í samfélaginu. Dæmi um verndandi þætti hjá einstaklingum eru uppbyggjandi viðhorf, bjartsýni, stjórn á tilfinningum, húmor og hæfileiki til að leysa úr vandamálum. Í nærumhverfinu eru það m.a. náin tengsl við fjölskyldu og vini og í samfélaginu að vera í góðum skóla eða vinnu, taka þátt í samfélaginu og hafa gott aðgengi að viðeigandi stuðningi. Seiglu er því að hluta hægt að þroska með sér og við þurfum að leita allra leiða til að efla seiglu á öllum þessum stigum meðan við tökumst á við COVID-19. Það ætti að vera algjört forgangsatriði að gera allt sem hægt er til að halda skólum opnum, tryggja atvinnu og gott aðgengi að þjónustu og stuðningi.

Félagstengsl í faraldri

Kerfislægar aðgerðir eru mikilvægar en einnig er margt sem við getum gert sem einstaklingar til að efla félagstengsl á þessum sérstöku tímum. Það getur verið fólgið í því að eiga fleiri og meiri gæðastundir með okkar nánustu, vera duglegri að knúsa okkar allra nánustu, spila saman, elda saman og vera úti í náttúrunni. Einnig að halda þéttara sambandi við þá sem við hittum ekki í eigin persónu í gegnum síma og samfélagsmiðla. Vinahópar hafa hist í gegnum fjarskiptaforrit og starfsfólk vinnustaða verið með ýmiskonar viðburði á netinu. Það getur líka skipt sköpum að heilsa fólki á förnum vegi, í búðinni eða á göngu og jafnvel taka stutt spjall við nágranna með viðeigandi nálægðartakmörkunum.

Forsenda fyrir því að geta verið í góðum tengslum við aðra, og geta verið til staðar fyrir þá sem þurfa, er að hlúa vel að okkur sjálfum. Leggjum okkur því fram um að borða hollan og góðan mat, hreyfa okkur reglulega, sofa nóg og sýna sjálfum okkur vinsemd og mildi. Það getur verið gott að spyrja sig hvað er það sem ég þarf mest á að halda núna? Og finna tíma fyrir það.

Það er hjálp að fá

Það er mikilvægt að leita sér hjálpar ef fólk finnur fyrir miklum eða langvarandi einmanaleika. Ef fólk skortir sjálfstraust eða færni í samskiptum, upplifir kvíða eða vantar orku eða heilsu til að bera sig eftir samskiptum, þá þarf að byrja á því að leita lausna við þeim vanda. Einstaklingar geta ekki alltaf veitt þann stuðning sem þarf og því er mikilvægt að félagslegan stuðning sé einnig að finna utan við okkar bakland, t.d. hjá fagaðilum og þjónustustofnunum. Seigla samfélaga byggist á því að það sé einhver sem grípur okkur þegar okkar bakland getur það ekki. Á covid.is er að finna aðila sem hægt er að leita til endurgjaldslaust. Einnig er hægt er að leita til heilsugæslunnar sem getur hjálpað til við að finna aðstoð við hæfi svo sem sálfræðimeðferð eða félagsráðgjöf. Eins er alltaf hægt að hringja í hjálparsíma Rauða Krossins 1717 eða hafa samband við netspjall Heilsuveru á www.heilsuvera.is

Dóra Guðrún Guðmundsdóttir er sviðstjóri lýðheilsusviðs.

Sigrún Daníelsdóttir er verkefnastjóri geðræktar embætti landlæknis.