Ég er nýkomin heim eftir afar lærdómsríka ferð til Úganda. Ferðin var allt í senn; ævintýraleg, óhugguleg, stórkostleg, sorgleg, mögnuð, bugandi … öll lýsingarorðin duga skammt.

Það fór fyrir mér eins og flestum sem heimsækja Afríku – hún situr í manni og maður er ekki samur eftir ferðalag til þessarar ótrúlegu álfu. Ég ferðaðist um landið, skoðaði ótrúlega fallega náttúru og makalaust dýralíf í landi sem hefur varla heyrt um „uppbyggingu innviða“. Allt slíkt fé rennur meira og minna í gríðarlega spillingarhít stjórnmálafólks sem hirðir helst hvern skilding en aldeilis ekki um skömm og hvað þá heiður.

Ég hitti fólk úr flestum lögum samfélagsins – frá vel stæðu embættisfólki til þeirra sem draga fram lífið á tæpum 300 krónum á mánuði. Hvernig það er hægt er mér óskiljanlegt en vinnusemi, sérstaklega kvenna, var áberandi, þrátt fyrir 80% atvinnuleysi. Eitt átti allt þetta fólk þó sameiginlegt og til skiptanna; góðmennsku, velvild og elskulegheit. Fólk virðist helst nálgast náungann eins og að honum gangi gott eitt til, tortryggni og fordómar eru ekki í forgrunni samskipta.

Það leiddi huga minn að því hvað sé fátækt – efnisleg fátækt er auðvitað „relative“ og verður aldrei skilin úr samhengi við það samfélag sem hún fær að þrífast í. Hún er óþolandi óréttlæti, sérstaklega í samfélagi sem okkar þar sem nóg er til og meira frammi.

Við þurfum hins vegar að huga að andlegri fátækt hjá okkur sem lýsir sér helst í illmælgi í garð náungans, sleggjudómum um fólk sem við þekkjum ekki og almennum leiðindum. Þetta kostar ekkert. Bætum okkur!