Tvö af stærstu ágreiningsefnum á Íslandi þessar vikurnar snúast um efnalítið og fátækt fólk.

Sú staðreynd ein staðfestir enn og aftur hversu mikilvæg baráttan fyrir kjörum þess er.

Það er gömul saga og ný.

Nýlundan er núna sú, að langflest af þessu fólki er útlendingar.

Af því að Íslendingar nenna ekki að vinna erfiðu störfin. Við erum of fín með okkur.

Það er einn verkurinn

Einkum af því að á sama tíma og vel flest lægstlaunaða fólkið innan Eflingar er útlendingar hefur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ákveðið að níðast enn frekar á illa settum útlendingum.

Með nýjum lögum um þá.

Hér er ekki tóm til að rekja efnisatriði þeirra mála, einungis reynt að setja í samhengi.

Jón Gunnarsson, Sigmundur Davíð og Inga Sæland – að ég nefni ekki Birgi Þórarinsson, þennan með altarismyndina af sjálfum sér í prívatkirkjunni sinni – klifa á því að svokölluð útlendingamál séu „algerlega stjórnlaus“

Það er rakin þvæla, og orðbragðið er vísvitandi.

450 milljónir

Á morgun gætu 450 milljónir manna flutt til Íslands, ef þau kysu svo.

Og ef aðstæður byðu upp á það, til dæmis húsnæði.

En annars alveg athugasemdalaust.

Af því að það er ferða- og atvinnufrelsi innan EES.

Fáein þúsund fólks, sem þarf á skjóli að halda, skapa ekkert stjórnleysi. Slíkar frasaklisjur lýsa vanmætti þeirra sem ráða ekki við verkefnið og kjósa að kenna öðrum um. Útlendingunum.

Fyrr á öldum var fólki sjaldnast úthýst í íslenzkum sveitum, beiddist það gistingar, en einstaka smásál lokaði þó dyrunum með þeim orðum að „þetta“ væri trúlega lúsugt, þótt innan dyra væru fleti, hlýja og nægur grautur.

Sú hugsun er enn undirliggjandi þema í máli þeirra sem vilja loka dyrunum. Ögn meira um það á eftir.

Hreinir eiginhagsmunir

Önnur þvæla – jájá – er að nýbúar megi ekki koma til Íslands nema eftir skýrt skilgreindri neyð og alls ekki í leit að betra lífi eða af „efnahagslegum ástæðum“.

Það er svo mikill kostnaður af þessu hyski.

Einmitt.

Segið það sjúkrahúsunum, hótelunum, fiskvinnslunni og öðrum verksmiðjum úti um allt land áratugum saman – eða bara sláturhúsunum.

Helvítis útlendingarnir halda þessari starfsemi uppi, og við þyrftum fleiri af þeim frekar en hitt.

Af því að við erum of fín með okkur. Meikum ekki slorið og gorið, niðurganginn og æluna.

Þegar Inga Sæland vill enn einu sinni etja saman fátækum útlendingum, sem halda uppi nauðsynlegri þjónustu, og öðru fátæku fólki – til dæmis öryrkjum og sumu eldra fólki – yfirsjást henni þessar grjóthörðu staðreyndir.

Kannske er Inga ekki rasisti, eins og hún segir. En hún talar af dæmigerðri evrópskri útlendingaandúð.

Þið dragið svo bara ykkar ályktanir. 🎈

Já – rasisminn

Eiríkur Bergmann hefur leitt að því rök í sínum fínu skrifum hvers vegna á Íslandi hefur aldrei orðið til alvöru rasistaflokkur: Rasisminn svolgraðist inn í hina flokkana.

Nazistarnir gengu í Sjálfstæðisflokkinn og ekki vantaði kynþáttahyggjuna í gamla Framsóknarflokkinn. (Eða hinn nýja: „Á ég að halda á þessari svörtu?“)

Við lokuðum dyrunum á gyðinga fyrir seinna stríð og sendum þá þar með í opinn dauðann.

Við tókum blessunarlega á móti fjölda Ungverja upp úr 1956. Áhugafólk um íslenzka tónlistarsögu veit hvaða ávexti það bar.

Um miðjan áttunda áratuginn varð talsvert uppnám þegar tekið var á móti „bátafólki“ frá Víetnam. Þá var þjóðmenningin í uppnámi og við skipuðum þessu fólki vitaskuld að taka upp íslenzk nöfn. Eilífur Friður hefur alltaf verið í uppáhaldi.

En þjóðmenningin fór náttúrlega á hliðina. Við fengum núðlur og Nings.

Svo mætti lengi telja, en gyðingar okkar tíma eru múslimar. Nýja rasistatízkan er múslimaandúð, eins og dæmin sanna á hverjum degi.

Fátækt fólk

Fyrir því eru semsagt ótal eiginhagsmunarök að fá til Íslands fleira fólk en færra, en þau eru hjóm fyrir þá sem eiga í hlut.

Það er nefnilega fólk í leit að betra lífi. Eðli málsins samkvæmt flytja fáir til Íslands vegna veðurfarsins.

Barátta Eflingar – og allra hreyfinga launafólks – snýst að stórum hluta um þetta fólk.

Tryggvi Emilsson sendi frá sér hálfáttræður bókina Fátækt fólk. Ári síðar kom Baráttan um brauðið. Gömul saga og ný.

Væri einhver til í að redda Halldóri Benjamín og Katrínu Jakobsdóttur bókasafnskorti?

Þau virðast hafa týnt sínum.

Við þurfum nefnilega að læra.