Það er mikil ró yfir ríkisstjórn landsins, ef undan er skilinn einn af ráðherrunum, en sá fer fyrir dómsmálum og keppir svo hressilega við tímann að hann stelur senunni svo til vikulega, samfélagsmiðlum til ómældrar geðshræringar.

En allur þessi hamagangur mannsins er afhjúpandi. Hann vitnar um fátækt þjóðarinnar sem stendur að því er virðist á berangri í upphafi nýs árs; það er eins og hún eigi hvorki í sig né á.

Ofan í mannekluna, sem virðust hrella alla opinbera þjónustu, hvort heldur er innan lögreglu eða heilbrigðiskerfisins, eru ekki lengur nokkur efni á þeim tækjum og tólum sem þarf til að rækja hversdagsleg verkefni.

Og þannig er því farið að landinn hefur ekki lengur ráð á einu flugvélinni í flota Landhelgisgæslunnar. Það er sameiginlegum sjóði landsmanna ofviða að fljúga henni í þau verkefni sem varnir almennings hafa kallað eftir á neyðarstundum. Svo það á að selja hana.

Eftir situr þjóð við ysta haf sem spyr sig vitanlega að því hvort hún hafi ekki lengur efni á þjónustu hins opinbera.

Þar er komin birtingarmyndin af afrakstri stjórnvalda. Þjóðin hefur ekki lengur sömu fjárráð og áður. Hún er beinlínis að verða blönk.

Og þetta gerist þrátt fyrir auknar álögur sem er samnefnarinn í stjórnarfari Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sem ásamt þægilega prúðum Framsóknarflokki hefur haldið um stjórnartaumana í hálfan áratug.

Hvað hefur gerst á þeim tíma?

Er ofsagt að það sé ekkert?

Ekki hefur hagur heilbrigðiskerfisins skánað á þessum tíma. Miklu fremur er því þveröfugt farið. Ekki hefur okkur tekist betur upp í vetrarþjónustu á þjóðvegunum. Og núna er svo komið að skera þarf niður fjármuni til þjóðarháskólans sem á fyrir vikið erfiðara með að keppa við háskóla nágrannaþjóðanna um nemendur víða að úr löndum heimskringlunnar.

Og það er sárara en tárum taki að nefna þjónustu við aldraða og öryrkja, en annar tveggja hópanna er orðinn að einhverjum kerfislægum fráflæðisvanda á meðan hinn situr eftir með æ rýrari kjör sem eru í engum takti við lágmarksviðmið hins opinbera.

Og enn grátlegra er að fylgjast með biðlistunum á bæklunarstofum ríkisins, greiningarstöðvum þess, talmeinaþjónustu, sálfræðiaðstoð og á meðferðarheimilum af öllu tagi, en almenningur, jafnvel okkar veikustu börn, er númer rugl í röðinni.

Hvernig tókst okkur þetta eiginlega?

Hvernig fórum við að því að búa til samfélag þar sem landsmenn borga rausnarlega skatta en þurfa svo jafnframt að borga fyrir hvert viðvik í allra handa þjónustu hins opinbera?

Svarið er líklega að við kunnum ekki að stjórna.