Stefna stjórnvalda um rannsóknir og nýsköpun er skýr, en á heimasíðu stjórnarráðsins segir: „Rannsóknir og nýsköpun gegna lykilhlutverki í efnahagslegri þróun, menningu og velferð og efla getu samfélagsins til þess að mæta samfélagslegum áskorunum.“

Með grunnrannsóknum er sköpuð ný þekking sem er grunnur að frekari rannsóknum og framtíðarþróun sem skilar sér í samfélagslegum áhrifum, t.d. í formi vöru, aðgerða, aðferða eða heilla kerfa. Leiðin frá áhugaverðum rannsóknarniðurstöðum að nýsköpun og hagnýtingu getur verið býsna löng og flókin. Nægir í því sambandi að líta til Nóbelsverðlauna sem eru veitt fyrir áratuga gamlar uppgötvanir sem löngu síðar leiða til mikilvægrar nýsköpunar og áhrifa í samfélaginu.

Vísindalegar rannsóknir hafa skapað ný tæknisvið sem gjörbylt hafa heiminum og má sem dæmi nefna gervigreind, skammtatölvur, líftækni, nanótækni. Viðfangsefni vísinda eru viðameiri nú en nokkru sinni áður enda fást þau við stærstu áskoranir mannkyns, heilbrigðismál, matvælaöryggi, sjálfbærni og loftslagsmál svo nokkur dæmi séu nefnd.

Komum vísindum í vinnu

Það krefst markviss stuðnings að tryggja að vísindalegar rannsóknir verði að nýsköpun sem skilar sér til samfélagsins. Háskóli Íslands ásamt öðrum háskólum, rannsóknastofnunum, Landspítalanum, Samtökum Iðnaðarins og Vísindagörðum, leiddi stofnun Auðnu tæknitorgs í lok árs 2018. Auðna tæknitorg sinnir þekkingar- og tækniyfirfærslu, sem er kjarnastarfsemi í nýsköpun hvarvetna í samanburðarlöndum okkar. Í því felst að greina og leggja mat á niðurstöður og nýnæmi rannsókna, tryggja eftir atvikum hugverkavernd og að hjálpa vísindamönnum og frumkvöðlum áleiðis með verkefni sín og tengja þau við færni og fjármagn svo að verkefnin verði að raunverulegum lausnum úti í samfélaginu – með öðrum orðum að koma vísindunum í vinnu.

Í vísinda- og tæknistefnu Íslands 2020-2022 er framlag þekkingar- og tækniyfirfæslu viðurkennt sem mikilvægur liður í vistkerfi rannsókna og nýsköpunar. Hugverkastefna stjórnvalda 2016-2022 leggur áherslu á mikilvægi verðmætasköpunar sem byggist á uppfinningum og þekkingu úr rannsóknarstarfi. Tækniyfirfærsla er farvegurinn til þess og órjúfanlegur hluti af nýsköpunarferli rannsókna og hana þarf að fjármagna eins og rannsóknirnar sjálfar, líkt og bent var á í nýrri skýrslu OECD (OECD Economic Surveys: Iceland 2021). Án tækni­yfirfærslu minnka líkur til þess að rannsóknir verði að nýsköpun og mæti þeim fjölmörgu áskorunum sem við stöndum frammi fyrir í dag.

Til þess að vísindaleg nýsköpun geti skilað sér til samfélagsins þarf keðjan frá vísindum til nýsköpunar og lausna að vera órofin og farvegurinn til þekkingarsamfélagsins að vera til staðar. Þessi keðja getur ekki verið sterkari en veikasti hlekkur hennar og ekkert á þessari vegferð gerist af sjálfu sér.

Auðna er nauðsynlegt verkfæri háskóla- og vísindasamfélagsins sem þarf stuðning stjórnvalda til að tryggja að nýsköpun finni sinn farveg og gegni lykilhlutverki í efnahagslegri þróun samfélagsins.