Áhugasamir hafa eflaust ekki farið varhuga af deilunum um Borgarlínu og Lite-BRT útgáfunnar sem nefnd hefur verið Léttlína. Í hnotskurn snýst munurinn um sérakreinar eða forgangsakreinar og fjölda stoppa. Borgarlínan (Full Service BRT) setur lágmarksferðatíma í forgang með því að hafa langt á milli stoppa eftir langri leið sérakreina. Léttlína setur áhersluna á háa ferðatíðni með blöndu af sér- og forgangsakreinum og snjallljósastýringu til að stytta ferðatíma og fleiri vögnum með stutt á milli stoppa á útbreiðara leiðarneti. En markmiðið er það sama: bæta þjónustu almenningssamgangna og fjölga farþegum, bráðnauðsynlegt verkefni, þó veðmálið sé ólíkt.

Þeir sem veðja á Borgarlínu veðja líka á að ferðatíminn skipti tilvonandi farþega mestu máli, þeir sem veðja á Léttlínu veðja á að aðgengi (fjöldi stoppa) og tíðni skipti mestu máli. Í borgum þar sem báðar útgáfurnar má finna hafa rannsóknir sýnt að farþegar telja þetta jafngóða kosti en að ferðatíðnin skipti farþega mestu máli og næst fjöldi stoppa, þó stuttur ferðatími sé líka mikilvægur. Nýleg rannsókn á forspárnákvæmi BRT verkefna í Bandaríkjunum sýndi að þó kostnaðarspár reyndust sæmilega nákvæmar, þjáðust notkunarspár af mikilli bjartsýnis skekkju. Önnur rannsókn sýndi að notkun BRT í borgum í Norður-Ameríku af sambærilegri stærð og höfuðborgarsvæðið, var einungis um 2-5% en flakkaði frá 2-17% þegar þjónustusvæðið náði rúmlega tveimur milljónum manna. Sú borg sem sýndi besta árangurinn miðað við höfuðtölu hafði brugðið af sporinu með að hafa ekki meira en 400 metra milli stoppa, þá á kostnað ferðatímans, ólíkt hefðbundnum BRT leiðarkerfum og Borgarlínu.

Fyrir vikið er erfitt að slá Léttlínu af borðinu enda tekur það 3-4x styttri tíma og minna fé að byggja og reka Léttlínu en Borgarlínu þó hún skili sama árangri fyrir upplifun farþega. En ljóst er að árangur þessa verkefnis mun ráðast af því hvort markmiðið sé að hugur farþega stýri ákvörðunartökunni eða að ákvörðunartakan byggi á því að stýra hugum farþega.