Höfundur þessarar greinar hélt nýlega erindi í Rótarýklúbbi Reykjavíkur sem kallaðist Samspil faraldurs, sóttvarna og efnahagsumsvifa. Erindið var að hluta til byggt á lokaskýrslu starfshóps fjármála- og efnahagsráðherra um efnahagsleg áhrif sóttvarna og greinum sem ég hef birt síðustu misserin.

Í erindinu mínu fór ég yfir helstu niðurstöður starfshópsins varðandi þá þætti sem falla undir fyrirsögn erindisins en ýmsu var sleppt, t.d. varðandi efnahagsbatann. Meðal þessara niðurstaðna voru þær að á heildina litið hafi innlendar sóttvarnir verið minna íþyngjandi hér á landi en í flestum OECD-ríkjum. Neikvæð efnahagsleg áhrif af faraldrinum hafi hins vegar verið mikil, ekki síst vegna mikils vægis ferðaþjónustu. Á móti komi að neikvæð áhrif á innlenda eftirspurn (þ.m.t. einkaneyslu) hafi verið minni en víðast annars staðar, m.a. vegna opinberra mótvægisaðgerða og árangursríkra sóttvarna. Reynslan sýnir að fólk bregst við faraldrinum óháð sóttvörnum, með þeim afleiðingum að neysla og umsvif dragast saman. Það dregur úr neikvæðum skammtímaáhrifum sóttvarna sem slíkra og valkostur óbreyttra efnahagsumsvifa verður ekki til staðar. Neikvæð efnahagsleg áhrif hafa minnkað eftir því sem liðið hefur á faraldurinn. Að lokum var ég með hugleiðingar um hvernig valkostirnir breytast með bólusetningum.

Ég sýndi nokkrar myndir til að styðja mál mitt. Meðal þeirra var sú sem Þorsteinn Pálsson birti með grein sinni í Fréttablaðinu í gær og gerð var að umfjöllunarefni á forsíðu blaðsins. Myndin sýnir ársfjórðungslega þróun árstíðarleiðréttrar landsframleiðslu í völdum löndum, þ.m.t. á Íslandi. Hún er uppfærsla á mynd sem ég hafði birt í grein í Vísbendingu í mars sl. Tilgangur hennar þá var að varpa ljósi á í hvaða mæli niðursveifla og bati tengdur faraldrinum var v-laga. Í því samhengi var eðlilegast að taka sem útgangspunkt síðasta ársfjórðunginn áður en áhrifa faraldursins tók að gæta. Í erindi mínu notaði ég myndina til að varpa ljósi á það að efnahagsleg áhrif faraldursins hafa minnkað þrátt fyrir nýjar bylgjur. Til að leggja mat á efnahagsbatann á Íslandi í samanburði við önnur lönd þarf hins vegar að taka fleiri þætti til skoðunar og í því samhengi kann upphafspunkturinn einnig að skipta máli eins og fjármála- og efnahagsráðherra bendir á í samtali við blaðið.

Þorsteinn Pálsson falaðist eftir myndinni og gögnunum að baki henni og óskaði heimildar til að birta hana með grein sem hann hugðist skrifa. Ég sá enga ástæðu til að neita því þar sem gögnin eru hverjum sem er aðgengileg. Það er hins vegar vægast sagt ónákvæmt sem segir í frétt á vef Fréttablaðsins að Þorsteinn byggi greiningu sína að nokkru á erindi mínu. Ekkert af ályktunum Þorsteins komu fram í máli mínu. Þær eru hans, byggðar á því sem hann sér á myndinni og á öðru efni sem hann hefur kynnt sér í gegnum tíðina. Það kann að vera að eitthvað af því sem hann nefnir skipti máli í þessu sambandi. Mér sýnist þó að vægi sumra þeirra sé meira varðandi langtíma hagvöxt en skammtíma sveiflu. Nærtækara er líklega að horfa til þess að óháð því hvað kann að vera æskilegt vægi ferðaþjónustu til lengdar litið er endurbati hennar fljótlegasta leiðin til efnahagslegrar viðspyrnu og sá bati á enn töluvert í land.