Nýafstaðin tískubylgja, sem fólst í því að láta vísindin kortleggja persónuleikann og birta svo niðurstöðurnar fyrir alþjóð, var athyglisverð. Hún tók þó bráðan endi þegar Persónuvernd brýndi fyrir fólki að bregða pjötlum fyrir nekt persónuleikans. Engu að síður skil ég þá fróun sem hlýtur að fylgja því að segja sisvona: hér sjáið þið djásnið mitt, ef til eru andlegir baunateljarar sem geta gert sér mat úr þessu þá verði þeim að góðu.

Það sem gerir þetta enn skemmtilegra, er að nú er nýafstaðin karnivalhátíð hér á Spáni. Þar er gert út á gjörólíkt gaman. Þar er farið í dulargervi og skemmt sér við þá fró sem fylgir því að gangast ekki við sjálfum sér. Vera utan við sjálfið en Forn-Grikkir kölluðu slíkt ástand ekstasis sem samkvæmt orðanna hljóðan hlýtur að vera fjör.

Já, maðurinn skemmtir sér jafnt við dulbúning sem nektarnautn. En þá er líka komið að mínu innleggi í þessa umræðu: mannveran er slík óreiða af andstæðum að einu vísindin sem gætu einhverju ljósi varpað á hana væru einhvers konar veðurfræði fyrir lengra komna. Það er nefnilega engin leið að segja í mannheimum hvort það sé gamansemi eða gremja austur af Glettingi. Mannveran er það sem hún segist vera en þó miklu frekar það sem hún segist ekki vera og samt er engin andstæða í því fólgin. Hún er eilíft karnival, þar sem ekkert er eins og það á að vera en einmitt þannig á það að vera.

Svo segist Kári geta kortlagt þessi ósköp.