Eftir alvarlegt bakslag í baráttunni við veiruna er því miður nauðsynlegt að grípa til aðgerða, meðal annars til að sjúkrastofnanir standist álagið og til að verja viðkvæma hópa. Margt bendir til þess að við munum þurfa að lifa með veirunni lengi enn. Því er nauðsynlegt að gæta meðalhófs, þannig að fólk geti átt sem eðlilegast líf og atvinnulífið gangi sem hnökraminnst. Samhliða þessu þarf að skerpa á aðstoð við heimili og fyrirtæki sem faraldurinn bitnar harðast á.

En við megum ekki gleyma okkur eingöngu í stundarstríðinu og þurfum að huga að framtíðinni og forgangsraða í þágu þess sem er okkur allra dýrmætast; barna og ungmenna.

Nú hafa takmarkanir á félagslífi í landinu verið umtalsverðar í eitt og hálft ár. Hjá framhaldsskólanemum er það helmingur námstímans, á þeim árum þegar félagslífið hefur sérstaklega mikið vægi. Mannleg samskipti og félagsleg færni eru grundvallaratriði í þroska barna og ungmenna. Rannsókn Rannsókna og greiningar, sem náði til 59 þúsund unglinga á aldrinum 13–18 ára, sýndi að félagsleg einangrun í Covid-19 faraldrinum hafði gríðarlega slæm sálræn áhrif á ungt fólk.

Hagsmunir barna og ungmenna þurfa að vega mjög þungt við val á aðgerðum í baráttunni við veiruna fram undan. Tryggja þarf að skólastarf komist af stað í ágústlok. Og líka að börn og ungmenni geti stundað nám með eðlilegum hætti en ekki síður að þau geti átt fjörugt félagslíf sem stuðlar að heilbrigði þeirra og eðlilegum þroska.

Farsæl framtíð okkar veltur mikið á vel menntuðu fólki sem getur gætt atvinnulífið meiri fjölbreytni sem byggir ekki síst á hugviti og nýsköpun.

Vissulega munum við komast í gegnum þennan erfiða kafla og vinna bug á faraldrinum en ef við verjum ekki stöðu unga fólksins er hætta á að við munum vakna upp við það að hafa unnið orustuna en tapað stríðinu.