Styttur eru yfirleitt til prýði í umhverfi sínu, jafnvel þótt sá einstaklingur sem á þær horfir viti ekki alltaf af hverjum viðkomandi stytta er. Stundum er einfaldlega engin merking til að skýra það út fyrir honum. „Þetta var greinilega einhver merkilegur sem gerði mannkyninu gagn,“ hugsar hinn jákvæði áhorfandi sem er gefinn fyrir styttur.

Styttur eru venjulega af hvítum karlmönnum, enda hafa þeir um aldir fengið að valsa um frjálsir og hampa hver öðrum. Einhver breyting er þó að verða á þessu en í kjölfar grimmdarlegs morðs á blökkumanninum George Floyd hefur karlastyttum fækkað nokkuð. Æstur lýður hefur fellt þær af stalli, hverja á fætur annarri.

Eins og alkunna er þá er rökhugsun ekki efst í huga þess sem er reiður og æstur. Þannig framkallar það sjálfkrafa gremju hjá einhverjum hópum að sjá styttu af hvítum karlmanni í gamaldags múnderingu og hann er samstundis stimplaður sem afturhaldssinni, afsprengi nýlenduveldis og hatursmaður minnihlutahópa. Ekki er lagt upp úr því að kanna hvort svo hafi raunverulega verið, enda er það alltof tímafrekt. Styttan skal eyðilögð, meðan gleðióp viðstaddra hljóma.

Eins og alltaf gerist þegar fólk gengur berserksgang þá falla hinir saklausu einnig. Það þykir nánast sjálfsagður fórnarkostnaður í þágu málstaðarins. Ekki er langt síðan sjá mátti safnvörð í Noregi nánast grátandi vegna þess að í Bandaríkjunum var eyðilögð stytta af norskum innflytjanda, Hans Christian Heg, sem var einarður talsmaður mannréttinda svartra og barðist í þrælastríðinu. Hann var hvítur karlmaður í múnderingu og þar að auki barn síns tíma. Það nægir til að setja hann út af sakramentinu.

Vitaskuld er engin ástæða til að allar styttur standi um aldir og ævi. Sumar hefði aldrei átt að reisa. Ástæðulaust er til dæmis að hylla sérstaklega þá grimmdarseggi, sem lögðu allt upp úr því að auðgast sem mest af þrælasölu og þrælahaldi. Þeir sem fá af sér styttu verða helst að hafa gert eitthvað jákvætt, sem skiptir máli fyrir marga. Sem merkir samt alls ekki að þeir þurfi að hafa verið gallalausir og aldrei gert afdrifarík mistök.

Manneskjur eru ekki englar. Þær eru mótsagnakenndar, þeim verður á og gera alls kyns mistök. Skyndilega er einhver sem uppgötvar að Baden Powell, Churchill og Gandhi voru ekki algóðir og samstundis er æpt: Styttan skal falla! Fróðlegt væri að vita hvort þeir sem þar góla hæst, og umlykja sig helgislepju, treysti sér til að framvísa hreinu siðferðisvottorði.

Lið æsingafólks tekur sér vald til að ákveða hvort styttur skuli standa eða ekki og fær sitt í gegn með handafli. Grænlendingar fóru góða leið á dögunum þegar þeir efndu til íbúakosningar um það hvort stytta af danska trúboðanum Hans Egede skyldi standa eða víkja. Mikill meirihluti kaus að Egede skyldi fá að vera á sínum stað. Fólkinu þykir vænt um styttuna og notar það ekki gegn Egede að hann var barn síns tíma – eins og við erum öll.