Í upphafi hverrar viku eru Íslendingar sólgnir í fréttir af því hvað fallega fólkið gerði um helgina. Sjálfur er ég ekki saklaus af því. Þúsundum saman smellum við á fyrirsagnir sem teyma okkur áfram á marineraðar ljósmyndir af frægu fólki, sem fæst er frægt fyrir nokkuð annað en að vera frægt. Enginn veit af hverju og fáir geta bent á atvik í sínu lífi þar sem þetta fólk hafi áhrif á sig. Við stöndumst hins vegar ekki freistinguna af því að fylgjast með áhrifalausu fólki hafa einhver undarleg áhrif.

Undanfarið hef ég tekið eftir því að áhrifavaldarnir eru flestir farnir að verja tíma sínum saman um helgar. Þau virðast öll hafa fundið hvert annað og stofnað eitthvert félag. Hver í sínu lagi birta stjörnurnar myndir frá sama staðnum, sama partíinu, sama útsýninu, jafnvel sama fólkinu. Með myndunum birtast þó engin skilaboð – bara ljósmynd af þeim, horfandi alvörugefin og heimspekileg hvert í sína áttina, eitthvert út í tómið. Það virðist alveg bannað að horfa beint í myndavélina.

Ég sætti mig við að aldrei mun birtast mynd af mér og hápunkti helgarinnar í fjölmiðlum. Það hefur enginn áhuga á þannig mynd, enda er ég með öllu áhrifalaus. Ekki einu sinni börnin mín hlusta á það sem ég hef að segja. Eini sénsinn minn til þess að fá 100 læk á Facebook er að birta krúttlega mynd af krökkunum eða tagga hálfan vinahópinn. En öll verðum við að byrja einhvers staðar. Ég minni á að Jesús var bara með 12 fylgjendur í upphafi.