Stjórnmálabaráttan fer þessa dagana fram á fésbók. Það er varla að frambjóðendurnir hitti mann og annan. Fundunum er ýmist streymt, ellegar að þeir eru súmaðir og tímaðir eins og það heitir á seinni tíma íslensku. Fyrir vikið fer lítið fyrir hasarnum á opnum fundum þar sem Íslendingar með þingmanninn í maganum safnast saman og fara háðuglegum orðum hver um annan, milli þess sem troðnar eru illsakir við furðufuglana úti í sal. Núna hittast menn ekki nema inni á fámennustu kosningaskrifstofum sem sögur fara af í stjórnmálasögunni, einmitt til að skrifa eitthvað um sig á fésbók, eitthvað fallegt og vinsamlegt, í þeirri einu von að einhverjum líki við það …

Næsta stjórn

Miðað við skoðanakannanir síðustu vikna virðast þrír möguleikar vera á næstu ríkisstjórn, Katrín Jakobsdóttir haldi áfram með sína stjórn, að miðjustjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar taki við í samstarfi við Pírata, Samfó og Viðreisn, ellegar að hreinræktuð vinstristjórn haldi um stjórnartaumana á næstu árum með aðkomu Sósíalista, Vinstri grænna, Pírata, Samfó og Flokks fólksins. Og svo það sé bara sagt, þá væri það óskastaða fréttamanna að maður að nafni Gunnar Smári leiddi þá stjórn, en gúrkuleysið yrði þá algert …