Kaffið klárast og ég dríf mig af stað til að sækja meira. Við matvörubúðina sé ég ekki fyrir endann á halarófu viðskiptavina sem bíða álútir eftir að röðin komi að þeim. Ég rúnta að næstu búð en kem að læstum dyrum. Þarna stend ég á líflausri miðbæjargötunni og í þann mund sem ég íhuga næstu skref tek ég eftir skilti sem á stendur coffee shop og ör sem vísar á dularfulla slóð. Forvitnin leiðir mig inn í þröngt húsasund þar sem engin leið er að mæta manni, hvað þá að halda tveggja metra fjarlægð.

Við enda sundsins opnast fyrir mér nýr heimur: róandi niður frá gosbrunni, falleg listaverk og glaðlegur afgreiðslumaður. Mér finnst ég hafa fundið falda perlu. Þarna get ég keypt gott kaffi og kaffibaunir sem eru ristaðar á staðnum – eitthvað sem er vandfundið í Ameríku.

Í mínum huga er lífið þessa dagana svolítið eins og uppgötvunin á kaffihúsinu. Þegar áreitið minnkar fer maður að taka eftir perlunum í nánasta umhverfi.

Áður en veiran umturnaði lífi okkar horfðum við á jörðina hlýna á ógnarhraða; við vorum á góðri leið með að útrýma okkur sjálfum. Ef ekki með kulnun og streitu þá með spjöllum á náttúrunni, móður okkar allra. Skriðþungi neyslunnar var orðinn svo gífurlegur að engin bönd fengust til að hægja þar á. Þangað til hin smásæja veira greip inn í atburðarásina og hægði á okkur.

Í biðstöðunni sem nú hefur myndast í kapphlaupi lífsins skapast tækifæri til að skoða eigið líf, allavega fyrir okkur sem heima sitjum. Í þessari stöðu getum við fundið það sem gefur lífinu gildi og aldrei að vita nema faldar perlur finnist einmitt helst í hversdagsleikanum.