Öll vitum við að samskipti á vinnustað skipta máli. Svo miklu máli að velgengni fyrirtækis getur verið undir því komin að starfsmenn eigi eðlileg og skýr samskipti.

Erlendir starfsmenn í íslenskri ferðaþjónustu skipta þúsundum. Áætlað er að um fjórðungur þeirra tæplegu 30.000 starfsmanna sem starfa við greinina séu af erlendu bergi brotnir. Margir þeirra geta aðeins treyst á ensku sem sameiginlegt tungumál við gesti og samstarfsfólk. Allstór hópur erlendra starfsmanna er þó hvorki mælandi á íslensku né ensku. Vinna samt sín störf vel og af trúmennsku. Hins vegar má oft rekja misskilning á leiðbeiningum og/eða veittri þjónustu til tungumálaerfiðleika starfsmanna. Margt hefur verið gert til að auka tungumálafærni þessa hóps og oft með miklum ágætum.

Hæfnisetur ferðaþjónustunnar, samstarfsverkefni Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), annarra aðila vinnumarkaðarins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, var stofnsett árið 2017, tímabundið til þriggja ára. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA), í eigu aðila vinnumarkaðarins, hýsir verkefnið. Eitt af fjölmörgum verkum Hæfnisetursins hefur verið gerð, útgáfa og dreifing svokallaðra fagorðalista ferðaþjónustunnar, unnið með dyggum stuðningi ýmissa aðila, m.a. starfsgreinaráða og SAF. Fagorðalistarnir hafa nýlega verið kynntir á Menntamorgnum ferðaþjónustunnar sem eru stuttir morgunfundir Hæfnisetursins og SAF sem ætlaðir eru fyrirtækjum í ferðaþjónustu. Fagorðalistarnir eru u.þ.b. 100 algengustu fagorðin í hverjum af nokkrum meginflokkum ferðaþjónustunnar, þjónustu í sal, móttöku, veitingum, afþreyingu og þrifum. Orðalistarnir eru aðgengilegir á netinu, t.d. á vefsíðu Hæfnisetursins (hæfni.is) þar sem einnig má hlusta á framburð hvers orðs á íslensku. Þessi síða er með leitarmöguleika og hentar vel í snjallsíma sem eru ávallt innan seilingar. Gefin er þýðing á hverju orði á ensku og pólsku. Jafnframt hefur Hæfnisetrið látið útbúa veggspjöld með helstu orðum í hverjum flokki sem má setja upp til dæmis á kaffistofu starfsmanna, í eldhúsum veitingastaða eða annars staðar þar sem starfsmenn hafa aðgengi.

Samkvæmt reynslu fyrirtækja, sem hafa prófað þessi veggspjöld og vefsíðuna, hafa þessi verkfæri reynst góður upphafspunktur samtals og samskipta á vinnustað um hugtök, merkingu þeirra og framburð. Þau hafa ekki síður reynst íslensku starfsfólki vel til að þjálfa sig í ensku til að geta sinnt gestum sínum betur eða haft samskipti við pólska samstarfsmenn, svo dæmi séu tekin. Veggspjöldin og vefsíðan eru ókeypis fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu. Hægt er að nálgast veggspjöldin í gegnum hæfni.is.

Það var því vel við hæfi að ráðherra ferðamála, Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, og mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja D. Alfreðsdóttir, opnuðu formlega fyrir notkun listanna á Grand Hótel Reykjavík nú nýlega. Verkið sýnir einnig í hnotskurn nauðsyn þess að atvinnulífið og menntageirinn eigi í stöðugu samtali um þarfir atvinnulífsins fyrir hæft starfsfólk. Starfsfólk sem eflir sig í starfi eykur hæfni sína, verður öruggara í sínum aðgerðum og á betri möguleika á framgangi í starfi. Jafnframt eykst starfsánægja á vinnustað með markvissri fræðslu.

Fagorðalistarnir eru lítil skref á þeirri vegferð en mikilvæg skref í rétta átt og eitt af mörgum verkum Hæfniseturs ferðaþjónustunnar til að auka hæfni í íslenskri ferðaþjónustu.