Fólk með fíknivanda þarf fjölbreytt og fagleg úrræði. Mörg leita sér meðferðar við vandanum í þau úrræði sem boðið er upp á á Íslandi. Að meðferð lokinni getur verið flókið að fara beint inn í fyrri aðstæður og fólk þarf jafnan lengri stuðning til að viðhalda meðferð og bata.

Mörg eru einnig í húsnæðisvanda og jafnvel á götunni, en það er ein af afleiðingum langvarandi neyslu. Þá er mörgum ráðlagt að leita til áfangaheimila.

Fíknivandinn er gríðarlega flókið fyrirbæri. Þetta er ekki einsleitur hópur. Það hentar ekki öllum að leggjast inn í sjúkrahúsmeðferð í tíu daga. Það hentar enn síður öllum að fara í eitthvert annað úrræði þar sem fyrirbænir eiga að takast á við veikindin. Það hentar ekki brotnum ungum stúlkum að vera í blönduðum úrræðum með eldri mönnum með ofbeldissögu og dóma.

Í núgildandi lagaumhverfi er ekki kveðið sérstaklega á um leyfisskyldu eða eftirlit með rekstri og umsjón áfangaheimila. Þá eru engin lagaákvæði sem kveða á um heimild ráðherra til að setja eftirlit með þeim í reglugerð.

Okkar viðkvæmustu bræðrum og systrum ber að sýna virðingu og fagmennsku í þeirri hjálp sem veitt er. Dæmin sanna að víða er pottur brotinn í meðferðar- og áfangaheimilaúrræðum.

Grundvallaratriði er að fá lagalega skilgreiningu á hugtakinu áfangaheimili sem allra fyrst. Þannig getur í raun hver sem er rekið ýmsa starfsemi undir þessu heiti, enda hugtakið ekki bundið við tiltekna starfsemi.

Við höfum orðið vitni að skelfilegum afleiðingum þess að eftirliti með meðferðar- og eða áfangaheimilum sé ábótavant. Eftir situr fólk í sárum sem litlar forsendur hefur til að leita sér aðstoðar í því kerfi sem brugðist hefur.

Hér var sett af stað af þáverandi heilbrigðisráðherra vinna við heildarúttekt heilbrigðisþjónustu við einstaklinga með vímuefnasjúkdóma, en ég hef ekki frétt af henni síðan eftir kosningar og hef þó tvisvar spurt um hana í þingsal.