Í sérblaði Fréttablaðsins, sem ber heitið Markaðurinn, birtist þann 17. mars sl. sérkennileg grein eftir Val Þráinsson, aðalhagfræðing Samkeppniseftirlitsins undir heitinu „Samkeppni í matvælaframleiðslu styður við fæðuöryggi“. Enn og aftur svelgdist höfundi þessarar greinar á heita brauðréttinum enda er hún minnug þess að sérfræðingarnir í Samkeppniseftirlitinu héldu því fram á ráðstefnu fyrir nokkrum mánuðum að samkeppni í flugrekstri væri leið út úr COVID-19 heimsfaraldri. Að mati Samkeppniseftirlitsins er samkeppni lausn við öllum vanda – er þar ekkert undanskilið, ekki einu sinni heimsfaraldur.

Af hverju var greinin skrifuð?

Svo er að sjá sem ástæðan fyrir birtingu greinar aðalhagfræðingsins sé nýleg skýrsla Landbúnaðarháskóla Íslands „Fæðuöryggi á Íslandi“ sem unnin var fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og birt var fyrr á þessu ári.

Í skýrslunni kemur m.a. fram að innlendir matvælaframleiðendur gegna stóru hlutverki við að tryggja fæðuöryggi hér á landi. Þá er þar fjallað um fjórar meginforsendur sem íslenskt samfélag byggi fæðuöryggi sitt á, nánar tiltekið að:

  • auðlindir til framleiðslunnar séu til staðar
  • þekking á framleiðslu og tæki til framleiðslu séu til staðar
  • aðgengi að aðföngum sé tryggt fyrir framleiðslu sem mætir þörfum þjóðarinnar
  • birgðir séu til af þeim fæðutegundum sem þjóðin þarfnast en sem innlend framleiðsla getur ekki tryggt

Aðalhagfræðingnum telur vanta fimmtu forsenduna sem hann segir vera: „...samkeppni á milli innlendra matvælaframleiðenda, en virk samkeppni hefur jákvæð áhrif á framboð landbúnaðarafurða, nýsköpun, þjónustu og [...] hag neytenda og bænda.“

Þessari skoðun sinni til stuðnings fullyrðir aðalhagfræðingurinn að viðurkennt hafi verið í skýrslu FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, frá 2016 að samkeppni væri mikilvæg til að tryggja matvælaöryggi. Þessi skýrsla nefnist „Competition and food security“ og er rétt að skoða hvað þessi svokallaða skýrsla er og hvað hún segir í raun og veru.

Um „skýrslu“ Sameinuðu þjóðanna

Þar er fyrst til að taka að þessi svokallaða skýrsla er alls ekki skýrsla FAO heldur tæknileg nóta (technical note) sem prófessor einn í Exeter háskóla, Steve McCorriston að nafni, ritaði fyrir útgáfuröð FAO sem nefnist „The State of Agricultural markets“. Þessi tækninóta er auðvitað alls ekki skoðun FAO frekar en t.d. greinar í vísindatímarit sem rannsóknarstofnun gefur út er skoðun stofnunarinnar. Það er beinlínis verið að villa um fyrir lesendum Fréttablaðsins með því að gefa í skyn að hér sé um skoðun eða niðurstöðu FAO að ræða.

Umrædd tækninóta er aðeins 9 blaðsíður að lengd. Eftir stutta almenna hagfræðiumfjöllun víkur höfundur máli sínu að stöðu virðiskeðja á bómullarmarkaði í Sunnanverðri Afríku (e. Sub-Saharan Africa) og tekur sérstök dæmi frá Malaví, Zambíu og Fílabeinsströndinni. Ennfremur er vísað til rannsókna á kaffimarkaðnum í Rúanda, sykurmarkaðnum í Malaví og Suður-Afríku og markaði með áburð í Kenýa. Því næst er vísað til hugsanlegra samkeppnisbrota fyrir lauk á markaðnum í Indlandi og ólögmætra samninga matvælafyrirtækja í Botsvana. Af þessu má ljóst vera að höfundur er að fjalla um landbúnað í þróunarlöndum en ekki vestrænum löndum. Engin ástæða er til að ætla að niðurstaða hans, svo langt sem hún nær, eigi við um hinn mjög svo iðnvædda landbúnað vesturlanda

Dæmi um brot á samkeppnislögum

Eftir að hafa vísað með þessum vafasama hætti til þessarar tækninótu FAO grípur aðalhagfræðingurinn til þess ráðs að fjalla um nokkur dæmi um brot mjólkurafurðastöðva í Svíþjóð, Finnlandi og á Íslandi á samkeppnislögum. Nokkra furðu vekur að þessi dæmi eru nú öll frá Norður Evrópu, en ekki frá samkeppnisyfirvöldum í Malaví, Kenýa og Indlandi sem tækninótan fjallaði um. Þessi framsetning aðalhagfræðings Samkeppniseftirlitsins er mjög sérstök svo ekki sé meira sagt.

Af hverju fjallar Samkeppniseftirlitið aldrei um Noreg og ESB?

En af hverju grípur Samkeppniseftirlitið til þess ráðs að vísa til tæknilegrar nótu í útgáfum FAO, sem byggir á rannsóknum á bómullarmörkuðum við sunnanverða Sahara og hringamyndun á indverskum laukmarkaði, til að færa rök fyrir mikilvægi samkeppni við framleiðslu íslenskra landbúnaðarvara? Af hverju fjallar Samkeppniseftirlitið aldrei um Noreg og ESB, en það eru þau svæði sem íslensk stjórnvöld bera sig iðulega saman við.

Ástæðan er sú að víðtækar undanþágur frá samkeppnislögum gilda í Noregi og ESB fyrir framleiðendur landbúnaðarvara – m.ö.o. samkeppni milli innlendra framleiðenda landbúnaðarvara er takmörkuð í þeim tilgangi að ná markmiðum landbúnaðarstefna þessara aðila.

Samkvæmt 3. gr. norsku samkeppnislaganna frá 2004 getur konungur með reglugerð innleitt undanþágu frá 10.-11. gr. laganna sem er nauðsynleg til að útfæra norsku landbúnaðarstefnuna. Á þessum grundvelli eru norskir bændur og hagsmunasamtök þeirra undanþegnir gildissviði norskra samkeppnislaga.

Í ESB rétti gilda ennfremur víðtækar undanþágur fyrir bændur og samtök þeirra frá samkeppnislögum ESB – þessar undanþágur gilda m.a. fyrir framleiðendur mjólkur, kjöts og grænmetis. Í 209. gr. reglugerðar ESB nr. 1308/2013 um markaðskerfi með landbúnaðarvörur segir í lauslegri þýðingu:

Ákvæði 101. gr. gilda ekki um samninga, ákvarðanir og samstilltar aðgerðir bænda, bændasamtaka [...] sem varða framleiðslu eða sölu á landbúnaðarafurðum eða notkun sameiginlegrar aðstöðu til geymslu, meðhöndlunar eða vinnslu á landbúnaðarafurðum, nema þegar það stofnar markmiðum 39. gr. sáttmálans í hættu.

Nærtækara hefði verið fyrir aðalhagfræðinginn að gera grein fyrir þessum ákvæðum í grein sinni frekar en að vísa til tæknilega nótu ensks prófessors þó hún hafi birst í einni af mörgum útgáfum FAO. Þá hefði líka verið nærtækara fyrir aðalhagfræðinginn að fjalla um greiningu framkvæmdastjórnar ESB um hagræna nauðsyn fyrir stórar rekstrareininga í landbúnaði og hvernig þessar rekstrareiningar geta notið undanþága frá samkeppnisreglum ESB. Ekki er skortur á skýrslum frá framkvæmdastjórn ESB í þessu sambandi:

  • Skýrsla birt 2016: Factors Supporting the Development of Producer Organizations and their Impacts in the Light of Ongoing Changes in Food Supply Chains.
  • Skýrsla birt 2018: Study on Producer Organizations and their activies in the olive oil, beef and veal sectors.

Ennfremur hefði verið nærtækara fyrir aðalhagfræðinginn að fjalla um að eitt fjögurra markmiða norskrar landbúnaðarstefnu er „Matsikkerhet“ og að ein leið til að ná því markmiði er að tryggja samkeppnishæfar virðiskeðjur og stórar rekstrareiningar (n. konkurransedyktige verdikjeder og robuste enheter). Rétt er þó að undirstrika að þessar undanþágur veita í engu heimildir til að misnota markaðsráðandi stöðu.

Niðurlag

Í niðurlagi greinar sinnar tekur aðalhagfræðingurinn eftirfarandi fram: „Það kemur því ekki á óvart að í skýrslu á vegum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna hafi verið fjallað um mikilvægi þess að stjórnvöld gleymi ekki mikilvægi virkrar samkeppni í stefnumörkun sinni á sviði fæðuöryggis.“

Mín tillaga er þessi: Mikilvægt er að tryggja fæðuöryggi Íslendinga. Í mótun landbúnaðarstefnunnar skulum við byggja á fordæmum frá Noregi og ESB, svæðum sem við berum okkur saman við, en ekki tilvísunum úttektir á vegum FAO sem fjallar m.a. um Malaví, Kenýa, Rúanda og Indland. Tryggjum fæðuöryggi með undanþágum fyrir framleiðendur landbúnaðarvara þannig til verði stórar rekstrareiningar sem tryggja ávinning fyrir bændur og neytendur og íslenskt samfélag í heild.

Höfundur er hagfræðingur og verkefnastjóri hjá Mjólkursamsölunni.