Umræða um þær miklu breytingar á þjóðfélaginu sem leiða af tæknivæðingu nútímans – fjórðu iðnbyltingunni – er vissulega tímabær. Í leiðara Fréttablaðsins þann 11. janúar ,Auður í aldri, er vikið að atriðum sem snerta vinnumarkaðinn á tíma sem þjóðin eldist hratt. Það þýðir, ef mannfjölgun samkvæmt spám Hagstofunnar gengur eftir, verði afar mikil stækkun á aldurshópnum á þriðja aldursskeiðinu, þ.e. fólki 65 ára og eldri. Og með auknu langlífi gæti æviskeiðið eftir starfslok orðið álíka langt þeim tíma, sem viðkomandi voru á vinnumarkaði.

Mannfjöldinn á Íslandi 2019 var 361 þúsund og voru 230 þúsund á höfuðborgarsvæðinu og 130 þúsund utan þess. Svokölluð miðspá fyrir árið 2069 er 436 þúsund og gætu þá um 100 þúsund þeirra verið 65 ára og eldri. En þótt þetta séu aðeins ágiskanir og hugarflug, er full ástæða til að gera ráð fyrir aukinni framfærslubyrði hinna yngri vegna aukins fjölda hinna eldri. Spurningin er því hvort eða hvernig megi bregðast við, t.d. einnig með því að eldri kynslóðin megi staldra lengur við í atvinnu og með lengri eigin framfærslu.

Fólk á aldrinum 65-70 ára býr býsna oft við það atgervi að geta mætt óskum um að vinna lengur; um getur verið að ræða skort á sérfræðikunnáttu þeirra og eru læknarnir væntanlega ekki eina dæmi þess. En hver svo sem starfsgreinin er, ætti það að spara hinum yngri sporin, að geta notið fenginnar langrar reynslu þeirra sem skila af sér og hverfa frá. Í þeim anda er lagafrumvarp, sem er komið fram um að opinberir starfsmenn geti unnið lengur en til sjötugs.

En að lokum þetta : Gleymum því ekki að vaxandi hópur aldraðra er stærsti kjósendahópurinn. Ætti ekki að vera kominn tími til að stjórnmálaflokkar hefji innan eigin vébanda, umræðu um hvernig auka megi atvinnuframlag aldraðra í einkageiranum, þ.e. sem mestu án ríkisforsjónar? Myndi eldra fólk ekki meta mikils að heyra eitthvað annað en hve mjög þurfi að auka fjárframlög til elli­umönnunar?