Félag talmeinafræðinga á Íslandi (FTÍ) er aðili af Evrópusamtökum talmeinafræðinga (CPLOL), sem samanstendur af 31 félagi talmeinafræðinga frá 29 Evrópulöndum, með rúmlega 37,000 félagsmönnum. Evrópusamtökin standa árlega fyrir Evrópudegi talþjálfunar þann 6. mars en dagurinn var fyrst haldinn árið 2004 með það í huga að vekja almenning til umhugsunar um hið fjölbreytta starf talmeinafræðinga í álfunni og til að fræða almenning um tjáskiptaraskanir, sem geta komið fram í ýmsum myndum. Nýtt þema er valið á hverju ári sem sérstök áhersla er lögð á að kynna og í ár er þemað lestrar- og ritunarerfiðleikar.

Starfssvið talmeinafræðinga er viðamikið en þeir vinna m.a. með málþroska, framburðarfrávik, stam, raddmein, kyngingar- og fæðuinntökuerfiðleika, endurhæfingu eftir slys og áföll og samskipti almennt hvort sem þau eru hefðbundin eða óhefðbundin, þ.e. táknuð eða studd með notkun hjálpartækja. Samskipti á milli einstaklinga eru mikilvæg en þau geta verið munnleg, rituð og óyrt (látbragð og tákn). Að eiga í samskiptum við aðra er lykill að lífsgæðum, þar sem tjáðar eru þarfir, langanir, vonir og væntingar.

Evrópudagur talþjálfunar er í dag, 6. mars.

Lestrar- og ritunarerfiðleikar birtast í mörgum myndum en undirliggjandi eru oft veikleikar í hljóðkerfis- og málþroska. Undir málþroska falla hugtök eins og orðaforði, hljóðkerfisvitund, málskilningur, máltjáning og setningamyndun. Ef barn skilur illa fyrirmæli og útskýringar, hefur slaka tilfinningu fyrir málinu og lítinn orðaforða, tekur oft lengri tíma fyrir barnið að læra að lesa, auk þess sem getur vantað upp á lesskilning. Lestrarerfiðleikar eru þó oft ekki staðfestir fyrr en barn er komið í 4. bekk, þegar það þarf að geta lesið til að fylgja eftir námsefninu. Fram að þeim tíma hafa ,,rauðu flöggin“ þó eflaust verið sýnileg og reynt að vinna með veikleika og styrkleika barnsins eins og hægt er.

Lestrar- og ritunarerfiðleikar eiga ekki eingöngu við grunnskólabörn heldur geta erfiðleikarnir líka verið ákomnir eftir slys og áföll hjá fullorðnum. Stór hluti endurhæfingar einstaklinga eftir slys eða áföll felast einmitt í því að geta lesið og skrifað aftur sér til gagns og leika talmeinafræðingar þar stórt hlutverk með íhlutun og fræðslu til skjólstæðinga og aðstandenda þeirra.

Hlutverk talmeinafræðinga, þegar kemur að lestrar- og ritunarerfiðleikum barna, er m.a. að veita viðeigandi og fjölbreytta íhlutun til að efla bæði veikleika og styrkleika barnsins og að veita viðeigandi ráðgjöf til samstarfsaðila og foreldra um áhrif máltengdra þátta á lestrarvanda.

Í tilefni þessa Evrópudags talþjálfunar verður fræðsluefni tengt lestrar- og ritunarerfiðleikum aðgengilegt á heimasíðu FTÍ, www.talmein.is og á Facebook-síðunni Evrópudagur talþjálfunar. Tjáning fyrir alla – talþjálfun skiptir máli!

Höfundur er talmeinafræðingur og formaður FTÍ.