Þjóðfélagið skiptist í hópa á ýmsum forsendum og út frá ýmsum skilgreiningum. Ein skilgreiningin er, að skipta fólki upp í fjármagnseigendur, annars vegar, og þá, sem eru það ekki, hins vegar. Það vantar íslenzkt heiti yfir þennan síðari hóp, sem auðvitað getur almennt ekki talizt fátæklingar, hvað þá öreigar.

Hér er mest um venjulegt fólk að ræða, frá þeim, sem minna mega sín, upp í miðstétt og jafnvel lengra, en sá hópur, sem þarf fjármagn annarra, fjármagnseigenda, til að fjármagna sínar óskir, þarfir og sína velferð - kannske bíl, íbúð, hús, eða aðrar óskir eða þarfir - er stærsti hluti þjóðfélagsþegna.

Ekki er hægt að kalla þennan stóra hóp fjármagnsþurftalinga, sennilega er bara bezt, að kalla þennan hóp einfaldlega fjármagnsþurfa, þó að það sé nýyrði.

Í rauninni má segja, að grunn hagsmunabaráttan í hverju þjóðfélagi fari fram milli fjármagnseigenda og fjármagnsþurfa. Báðir hópar þurfa á hinum að halda.

Fjármagnsþurfar komast ekki undan því, að þurfa að leita til fjármagnseigenda. Fjármagnseigendur geta, hins vegar, líka ávaxtað sitt pund með margvíslegri annarri fjárfestingu, svo sem í hlutabréfum, verðbréfum, fasteignum, atvinnurekstri o.s.frv. Þeir hafa því oftast haft yfirhöndina í þessum samskiptum.

Stóra hagsmunamálið fyrir fjármagnseigendur og fjármagnsþurfa er spurningin um vexti. Hversu mikla vexti þurfa fjármagnsþurfar að greiða. Hér hafa fjármagnseigendur lengi haft sterka stöðu, neytt aflsmunar og þvingað fjármagnsþurfa til að greiða háa vexti, oft í slíkum mæli, að arðrán mætti kalla.

Fjármagnsþurfar greiddu þá oft fjámagnið, sem þeir fengu að láni, margfalt til baka vegna hárra vaxtakrafna fjármagns-eigenda.

Þannig urðu fjármagnseigendur ríkari og ríkari, en fjármagnsþurfar áttu í vök að verjast við að bæta stöðu sína, þrátt fyrir oft mikið starfsframlag eða aðra harða viðleitni til verðmætasköpunar. Það, sem umfram var daglegum þörfum og grunn eignamyndun, rann mest til fjármagnseigenda.

Þarna varð til mikið misrétti, mikill ójöfnuður, fjármagnsþurfar unnu og strituðu, en komust rétt eða sæmilega af, á sama tíma og fjármagnseigendur fleyttu rjómann ofan af afrakstri erfiðisins og blómstruðu.

Jafnréttið, sem æskilegt hefði verið, að væri milli þessara þjóðfélagshópa, var týnt og tröllum gefið.

Gjaldmiðill er efnahagslegt verkfæri og stjórnunartæki. Á bak við gjaldmiðla standa pólítískar hugmyndir og stjórnendur í formi stjórnmálaleiðtoga, fjármálayfirvalda og seðlabanka.

Með peningastjórn, gjaldmiðli og ramma utan um hann, er hægt að hafa áhrif á eða stjórna verðgildi gjaldmiðils, stöðugleika hans og þeirri ávöxtun, sem fjármagnseigendur geta tekið eða mega taka af fjármagnsþurfum.

Það hefur nú gerzt, fyrir tilstuðlan ESB, Evrópusambandsins, og Evrópska Seðlabankans, að gjaldmiðli sambandsins, Evrunni, hefur verið beitt, til að skapa stóraukið jafnrétti milli fjármagnseigenda og fjármagnsþurfa, með innleiðingu algjörrar lágvaxtastefnu, sem aftur byggir á styrk og stöðugleika gjaldmiðilsins.

Þannig losna fjármagnseigendur við áhættuna af því, að verðgildi peninga þeirra rýrni, en á sama hátt hefur ávöxtunin, sem fjármagnseigendur fengu lengi vel, 5-10-15% ársvexti, sem tvöfaldaði kannske fjármuni þeirra á fimm árum, verið færð niður undir núll, og liggur nú nokkuð við 1-2% ársávöxtun.

Á fimm árum eykst skuld fjármagnsþurfa mest um 10%, í stað þess að aukast um allt að 100“; tvöfaldast, eins og áður var.

Þetta nýja gjaldmiðilsverkfæri, Evran, hefur þannig stórbætt hag fjármagnsþurfa í 27 löndum og tryggt mörgum þeirra gott og blómlegt líf, sem ella hefði verið draumur einn. Jafnhliða hefur öryggi fjármagnseigenda verið aukið.

Ég vil taka þetta dæmi til að sýna fram á það stórkostlega nýja jafnrétti, sem Evran tryggir:

Ung hjón í Evru-landi kaupa íbúð fyrir sem samsvarar 60 milljónum króna. Þau greiða 10 milljónir í útborgun og eftirstöðvar, 50 milljónir, á 40 árum með 1% vöxtum. Heildar vaxtagreiðslur verða þannig um 10 milljónir króna.

Fjölskyldan í Evru-landi greiðir þá alls fyrir þessa íbúð 70 milljónir með vöxtum. Fjármagnseigendur fá „aðeins“ 10 milljónir fyrir að leggja fram fjármagnið.

Sama dæmi ungra hjóna hér á Íslandi. Kaupa fyrir 60 milljónir, greiða út 10 milljónir og fá 50 milljónir að láni, til 40 ára, en nú í krónum. Allra lægstu raunvextir hér, með eða án verðtryggingar, 5% á ári.

Á þennan hátt borgar unga íslenzka fjölskyldan um 50 milljónir í vexti, yfir þessi 40 ár, sem þýðir það, að íbúðin, sem þau keyptu á 60 milljónir, er komin í 110 milljónir.

Fjármagnseigendur fengu 50 milljónir fyrir fjármagnið, jafnmikið og þeir, sem byggðu og gengu frá íbúðinni, með öllum tækjum, innréttingum og öðru, sem til þurfti.

Hvaða glóra er nú í þessu!? Hér áður fyrr var þetta ennþá verra. Vextir miklu hærri. Íbúðarkaupendur voru að greiða sína íbúð þrefallt, eða meira.

Það er mál til komið, að Íslendingar setji sig inn í þessi mál og átti sig á því, annars vegar, hversu mikið og öflugt jafnréttistæki Evran er, og, hins vegar, hversu mikill skaðræðisvaldur og ójöfnuðartól krónan er.

Ungt fólk á Íslandi; kjósið þið ykkur nú út úr ójöfnuði og ranglæti inn í jafnrétti og réttlæti með því að styðja Evru-flokkana!