Hjörtur nokkur J. Guðmundsson, sem titlar sig „sagnfræðing og alþjóðastjórnmálafræðing (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál)“, enginn slortitill það, hefur undanfarinn áratug skrifað óhróðurs- og rangfærslupistla um Evrópu, ESB og Evruna á leiðaraopnu Morgunblaðsins, greinilega í þágu helztu áhrifa- og ráðamanna þar, og virðist nú vera orðinn sjálfstæður leigupenni sömu afla, hefur í seinni tíð fært skrif sín mikið yfir á Vísi, væntanlega til að útvíkka lesendahópinn og dreifa óhróðri og rangfærslum um ESB betur.

Síðustu vikurnar hefur hann birt 10 greinar á Vísi, flestar í þessu sinni. Sl. fimmtudag birti hann grein á blaðinu undir fyrirsögninni „Frelsið til þess að ráða eigin málum“.

Rangfærslurnar

Í þessari grein segir hann m.a. þetta: „ Innan sambandsins fer vægi ríkja fyrst og fremst eftir íbúafjölda þeirra. Því fámennari sem þau eru því minni möguleika eiga þau á því að hafa áhrif innan stofnana þess“.

Svo: „ Við þetta bætist að einróma samþykki ríkja Evrópusambandsins við ákvarðanatöku innan þess heyrir nánast sögunni til sem komið hefur sér sérstaklega illa fyrir fámennari ríkis sambandsins“.

Hér fullyrðir hann, að neitunarvald sé vart eða ekki til staðar innan ESB. Ef hann er sá fræðimaður, sem hann segist vera, veit hann auðvitað betur.

Hvað er hér rétt og satt?

Þó að við séum nú þegar 80-90% í ESB, í gegnum EES-samninginn og aðild að Schengen-samkomulaginu, er möguleg full og formleg aðild feikilega stórt mál fyrir okkur, vegna þess, að fyrst með fullri aðild fengjum við setu við borðið, aðstöðu til áhrifa og valda innan sambandsins, með okkar eiginn ráðherra, kommissar, eins og hin aðildarríkin, nú 27 – hvert, fjölmennt eða fámennt, hefur bara einn ráðherra – síðan fengjum við 6 þingmenn á Evrópuþingið, fulltrúa í öll ráð og allar nefndir sambandsins, og, það, sem mest er, í raun alveg afgerandi, við fengjum fullt neitunarvald til móts við alla aðra, hvað varðar alla veigamikla stefnumótun og allar stærri ákvarðanir ríkjasambandsins.

Neitunarvaldið nær til þessara sjö veigamiklu málaflokka:

Skattlagning

Fjárhagsáætlanir og fjármálaskuldbindingar

Félagsleg vernd og öryggi almennings

Samningar og ákvarðanir um upptöku nýrra aðildarríkja

Öryggis- og varnarmál

Samskipti og samningar ESB við önnur ríki

Sameiginleg löggæzla sambandsríkjanna.

Ekkert mál í þessum þýðingarmiklu málaflokkum getur farið í gegn eða hlotið samþykki til framkvæmdar, nema öll aðildarríkin, og, þá, líka við, ef við værum orðnir aðilar, myndum samþykkja. Með þessu fengjum við í hendur gífurlega mikið áhrifavald á gang mála og þróun sambandsins.

Þessu neitunarvaldi er heldur ekki hægt að breyta, hvað þá að draga úr því eða fella það niður, nema að öll aðildarríkin samþykki það. Það verður auðvitað aldrei.

Valdastöður í ESB

Varðandi allar helztu valdastöður í ESB, þá ræður einstaklingurinn, hæfni hans og geta, en ekki þjóðin eða stærð hennar, sem að baki stendur. Í 10 ár, eða frá 2004 til 2014, var José Manuael Barroso, frá Portúgal, 10 milljón manna þjóð, forseti framkvæmdastjórnarinnar, og næstu fimm ár þar á eftir, frá 2014 til 2019, var Jean-Claude Juncker, frá Lúxumborg, annars minnsta aðildarríkisins, forsetinn.

Allt tal um, að stóru ríkin ráði öllu í ESB, er því algjör fjarstæða. Með fullri aðild fengjum við stórfelldan aðgang að áhrifum og völdum, en í dag, þó að við séum með EES-samninginn og aðild að Schengen-samkomulaginu, höfum við sáralítinn aðgang til áhrifa eða valda.

Vert er líka að minna á, að hlutur kvenna í ESB er mikill, nú á tímum jafnréttis og kvenréttis, en nýlega var Roberta Metsola, 43 ára lögfræðingur frá hinu smáríkinu í ESB, Möltu, kjörin forseti Evrópuþingsins, en fyrir var Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnarinnar, og Christine Lagarde, forseti Evrópska Seðlabankans.

Afstaða og skilningur landsmanna

Í nýlegum skoðanakönnunum hefur skýr meirihluti þeirra landsmanna, sem afstöðu tóku, verið hlynntur fullri aðild að ESB. Margir, sem verið höfðu tvístígandi, áttuðu sig loks á mikilvægi fullrar og órjúfandi samstöðu hinna vestrænu ríkja álfunnar, viðskiptalega, efnahagslega, menningarlega, siðferðislega og varnarlega, í ljósi árásarstríðs Pútíns á Úkraínu.

Flestir skilja nú líka, að Evrópa verður í framtíðinni að geta staðið ein, óstudd og sterk á eigin fótum. Ekki verður til langframa á Bandaríkin treystandi, yfir Atlantsála, og þar gæti líka komið annar Trump, sem myndi ekki gefa mikið fyrir Evrópu.

Margt bendir til, að NATO og ESB muni sameinast á næsta áratug, enda mikið sömu ríkin í báðum ríkjasamböndum.